Íslensk lög gilda um brot

„Íslensk stjórnvöld eru ekki bundin af því sem erlend stjórnvöld kunna að hafa samþykkt,“ segir Jón Þór Ólason, lögmaður og lektor í refsirétti við Háskóla Íslands. Fram hefur komið í fréttum að Jóhannes Stefánsson njóti verndar uppljóstrara í Namibíu.

„Í fjórðu og sjöttu grein hegningarlaga eru öll brot, með hliðsjón af alþjóðasamningum, sem við erum aðilar að, og tengd eru mútum, peningaþvætti og öðru slíku, refsiverð hér á landi.“ Almennt megi því refsa þeim sem brýtur gegn ákvæðum hegningarlaga um mútur hér á landi þó að brotið hafi verið framið erlendis og skipti þá ekki máli hvaða land sé um að ræða. „Við höfum gengist undir erlenda samninga og þar er kveðið á um að tekið skuli á spillingu, mútuþægni og öðru. Til að einfalda kerfið og ná fram refsingu í aðildarríkjunum getum við refsað á grundvelli íslenskra laga þó brotið sé framið í Namibíu, svo dæmi sé tekið.“

Málið í farvegi

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segir umfjöllunina um Samherja mjög afhjúpandi. „Við erum með efni þessa þáttar til skoðunar og meðferðar auk gagna sem við höfum þegar aflað okkur,“ segir Ólafur. „Það er búið að setja málið í ákveðinn farveg en við getum að öðru leyti ekki tjáð okkur um það.“

Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherjafélaganna í Namibíu, gaf skýrslu hjá héraðssaksóknara á þriðjudaginn, fyrir umfjöllunina. Hann segir of snemmt að segja til um það hvort aðilar sem veiti saksóknara upplýsingar sem nýtast við að upplýsa mál fái að njóta þess ef til ákæru kemur í málinu.

„Það er of snemmt að segja til um það. Við verðum að sjá hvernig málinu vindur fram. Umræðan liggur fyrir þinginu sem varðar uppljóstrara, en það hefur verið umræða um að það vanti í íslensk lög ákvæði um uppljóstrara.“

Lítil viðbrögð frá atvinnulífi

„Ég get ekki metið hvaða áhrif þetta hefur á orðstírinn. Þetta mál er í farvegi sem erfitt er að sjá hvar endar,“ segir Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs, spurð um þau áhrif sem umfjöllun um málefni Samherja í Namibíu geti haft á orðspor Íslands erlendis.

Einnig var reynt að fá fram viðhorf Jens Garðars Helgasonar, formanns Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Eyjólfs Árna Rafnssonar, formanns Samtaka atvinnulífsins, og Björgólfs Jóhannssonar, formanns Íslandsstofu, en ekki náðist í þá þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sendu frá sér yfirlýsingu þar sem meðal annars segir að ásakanir á hendur Samherja séu alvarlegar en það sé fyrirtækisins að bregðast við. Ljóst sé að mál af þess­u tagi get­i haft á­hrif á orð­spor ís­lensks sjáv­ar­út­vegs og stöð­u á al­þjóð­leg­um mark­að­i. Því sé brýnt að mál­ið verð­i rann­sak­að og hið rétt­a komi fram.