Markmið nýrrar íslenskrar handbókar, um kynlíf fyrir karlmenn á aldrinum 16 til 24 ára sem nú er unnið að, er að efla unga menn og hjálpa þeim að átta sig á því kynlífssamband við manneskju sé byggt á samspili, tjáskiptum, gagnkvæmri virðingu og tillitsemi.

Þetta segir Sóley Sesselja Bender, prófessor við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands og sérfræðingur í kynheilbrigði, og greint er frá á vef Háskóla Íslands.

„Ertu klár í kynlífið?“

Sóley Sesselja vinnur að verkefninu „Ertu klár í kynlífið? Handbók fyrir unga karlmenn um kynheilbrigði“ í samvinnu við fyrrum meistaranemana Katrínu Hilmarsdóttur og Lóu Guðrúnu Gísladóttur.

Saman hafa þær unnið að þremur rannsóknum um kynheilbrigði ungra karlmanna. Innblástur bókarinnar má rekja til þess sem kom fram í rannsókn Lóu Katrínar frá ungu karlmönnunum sjálfum að það vantaði handbók sem gæfi þeim leiðbeiningar um kynlíf.

Leiðarvísir fyrir unga karlmenn

Sóley Sesselja segir bókina eiga að vera eins konar leiðarvísir fyrir unga karlmenn um það hvernig er best að nálgast hlutina á heilbrigðan hátt.

Bókin verði rafræn og er markmiðið að hafa efnið grípandi og spennandi en að sögn Sóleyjar Sesselju er það vandasamt verkefni.

„Þetta er allt voða sexí hjá okkur og byggist bókin á sex meginþemum,“ er haft eftir Sóley Sesselju um hönnun bókarinnar en þemu hennar eru; sjálfsöryggi, sambönd, samþykki, stunda kynlíf, smokkanotkun og samskipti.

Oft erfitt að ræða við kynlífsfélaga

Að sögn Sóleyjar Sesselju reyndist það oft erfitt fyrir unga karlmenn að ræða á þægilegan hátt við kynlífsfélaga samkvæmt þeirra rannsóknum.

„Ef unga stúlkan sagði ekki neitt þá einhvern veginn gerðu ungu karlmennirnir ráð fyrir því að hún væri bara á pillunni en hún var kannski ekkert á pillunni. Hún þorði ekki að segja neitt og hann þorði ekki að segja neitt.“

Sóley Sesselja segir handrit bókarinnar komið aðeins áleiðis og að leitað verði álits hjá hópi ungra karlmanna varðandi hvað virki og hvað ekki.