Eldri kona með undirliggjandi sjúkdóm lést í gær af völdum COVID-19. Hún er fyrsti Íslendingurinn sem látist hefur af völdum hinnar skæðu kórónaveiru.

„Ég tjái mig ekki um þetta atvik að svo stöddu,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra við Fréttablaðið í gærkvöld, innt eftir viðbrögðum vegna þessara vatnaskila í baráttu Íslendinga við kórónaveiruna og sjúkdóminn COVID-19. Sagði ráðherrann ekki viðeigandi að hún tjáði sig fyrr en þessar upplýsingar kæmu opinberlega fram.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vildi heldur ekki tjá sig er frettabladid.is leitaði til hans í gær.

Er þetta annað andlátið af völdum COVID-19 hérlendis. Fyrir átta dögum lést Ástrali úr sjúkdómnum á Húsavík.

Á miðnætti gekk í gildi hert samkomubann. Er nú óheimilt að fleiri en tuttugu komi saman í einu. Bannið á að gilda næstu þrjár vikur. Þá er nú óheimilt að halda opnum vinnustöðum þar sem mikil nánd er við viðskiptavini. Á þetta til dæmis við um hárgreiðslustofur, snyrtistofur og nuddstofur. Þá má nefna að sundlaugum hefur nú verið lokað.

Samkvæmt upplýsingasíðunni covid.is höfðu um hádegisbil í gær verið staðfest 588 smit af kórónaveirunni hérlendis, 51 einstaklingi hafi batnað og sjö verið útskrifaðir af Landspítalanum

Hægst hefur á sýnatökum því aðeins um tvö þúsund sýnatökupinnar voru í gær eftir í landinu. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi að allar klær væru hafðar úti til að ná í fleiri pinna.

Þórólfur sagði að samkvæmt nýjasta reiknilíkani sé útlit fyrir að faraldurinn hámarki hér um miðjan apríl. Sagði sóttvarnalæknir meðaltalsaukningu sjúklinga vera hvað lægsta hér á landi miðað við önnur Evrópuríki.