Grundfirðingarnir Tómas Freyr Kristjánsson og Guðrún Jóna Jósepsdóttir og börnin þeirra þrjú eru stödd á Tenerife og hafa lent í miklum hrakförum vegna veikinda.

Tíu Íslendingar eru meðal eitt þúsund gesta í sóttkví á hótelinu H10 Costa Adeje Palace þar sem kórónaveirusmit hefur komið upp. Erfitt hefur reynst að lenda flugvélum á Tenerife vegna sandstorms og eru því margir  Íslendingar strandaglópar á Tenerife.

Veikindi fjölskyldu Tómasar og Guðrúnar tengjast þó ekki COVID-19 en þau hafa þó þurft að verja stórum hluta af fríi sínu á sjúkrahúsi.

Ólánið hófst þegar Tómas Freyr veiktist skyndilega í ferðinni þann 11. febrúar. Grunur var um botnlangakast. Veikindin reyndust hins vegar stafa af sjaldgæfri sýkingu í maga og þurfti hann að fara í skurðaðgerð. 

Með sex sentímetra bolta í maganum

Tómas Freyr var staddur á barnaspítalanum í Santa Cruz þegar Fréttablaðið náði af honum tali fyrr í vikunni.

„Þetta var eins og sex sentímetra bolti inni í maganum á mér. Þetta kallast Meckels diverticulum. Þetta er sjaldgæf en stór sýking. Ég var skorinn upp samdægurs þegar ég fór inn á spítalann.“

Til að bæta gráu ofan á svart greindist Breki, 5 mánaða sonur Tómasar og Guðrúnar, með RS veiruna strax eftir að Tómas Freyr útskrifaðist af spítalanum.

Guðrún Jóna með börnunum þremur.

„Við fórum út 4. febrúar og ætluðum heim þann 18. febrúar. Eftir að ég útskrifaðist af spítalanum, þá veiktist 5 mánaða gamla barnið okkar og er búið að vera á spítala síðan,“ segir Tómas Freyr. 

„Þetta er búið að vera frekar glatað. Þetta fór ekki alveg eins og þetta átti að fara.“

Tómas og fjölskylda hans gistu fyrstu næturnar á Tenerife á hóteli, rétt hjá H10 þar sem Íslendingarnir eru í sóttkví. Hann segist ekki hafa heyrt af því hvort hann og fjölskyldan þurfi að fara í sóttkví á Íslandi.

Breki greindist með RS veiruna sem er kvefveira sem leggst bæði á efri og neðri öndunarvegi.

Fluttur með sjúkrabíl á barnaspítala

„Við erum núna á hóteli í Santa Cruz. Ég var fyrst á sjúkrahúsinu í Los Cristianos og sonur okkar var líka lagður inn þar. Honum versnaði og var hann í framhaldinu fluttur með sjúkrabíl á barnaspítala í höfuðborginni.“

Tómas segir fáa hafa talað ensku á sjúkrahúsinu. Þau hafi þó getað rætt við læknana, sem kunnu ensku, en hafi þurft að nota orðabækur á netinu til að tala við aðra starfsmenn. Það hafi verið gríðarlega erfitt fyrir fjölskylduna þegar Breki varð einnig veikur einmitt þegar Tómas var að jafna sig eftir skurðaðgerðina.

„Við vorum mjög hrædd og stressuð, sérstaklega þegar hann var í marga daga með öndunargrímu.“

Guðrún hefur þurft að dvelja á sjúkrahúsinu með Breka litla og hefur Tómas leyst hana stundum af en aðallega verið að hugsa um eldri börnin sín tvö. 

Feðgarnir Tómas Freyr og Breki á sjúkrahúsinu á Tenerife.

Margir strandaglópar á Tenerife

Eldri börn Tómasar og Guðrúnar stefna á að fara með flugi heim til Íslands í dag og ætla hjónin að taka fyrsta mögulega flug heim þegar sonur þeirra útskrifast af spítalanum. 

„Það er mögulegt að hann verði útskrifaður í dag. Við förum þá með fyrsta flugi heim, vonandi í dag. Hér eru margir strandaglópar og erfitt að fá flug.“

Ekki er talin nauð­­syn á sér­­stakri sótt­kví fyrir þá sem eru ný­komnir frá Tenerife að sögn sóttvarnalæknis.

Tómas Freyr og börnin þrjú á Tenerife.