Ís­lensk stjórn­völd vinna nú að því að koma ís­lenskri þriggja manna fjöl­skyldu aftur hingað til lands. Fjöl­skyldunni verður komið í flug sem skipu­lagt verður af Evrópu­sam­bandinu.

Þetta kemur fram í stöðu­skýrslu al­manna­varnar­deildar ríkis­lög­reglu­stjóra, en þar er tekið fram að fjöl­skyldan sé ekki með ein­kenni CO­VID-19 veirunnar, eða kóróna­veirunnar eins og hún hét áður en nafni hennar var breytt. Ekki er tekið fram hvar í Kína fjölskyldan er stödd, en lokað hefur verið samgöngur til og frá Wuhan.

Í skýrslunni segir að á­fram sé unnið eftir Lands­á­ætlun um heims­far­aldur in­flúensu og að vinnu­hópur ríkis­lög­reglu­stjóra vinni nú að greiningu á hugsan­legum að­gerðum sem miða að því að stemma stigu við komu ferða­manna frá á­hættu­svæðum.

Þá kemur fram að hér á landi hafi 24 sýni verið rann­sökuð af sýkla- og veiru­fræði­deild Land­spítalans. Öll hafi reynst nei­kvæð.

Til­fellin sem greinst hafa eru frá: Kína (74.595), Hong Kong (65), Macao (10), Singa­púr (84), Taí­landi (35), Suður-Kóreu (82), Japan (84), Taí­van (24), Malasíu (22), Víet­nam (16), Sam­einuðu arabísku fursta­dæmin (9), Ind­land (3), Filipps­eyjar (3), Kam­bodía (1), Nepal (1), Sri Lanka (1), Ástralíu (15), Banda­ríkjunum (15), Kanada (8), Þýska­land (16), Frakk­land (12), Bret­land (9), Ítalía (3), Rúss­land (2), Spánn (2), Belgía (1), Finn­land (1), Sví­þjóð (1), Íran (2) og Egypta­land (1). Far­þega­skip við Japan (621). Flest til­fellin (99%), eða 74.670 hafa greinst í Kína. Af þeim 45 ein­stak­lingum sem greinst hafa í Evrópu hafa 14 smitast innan Þýska­lands, 7 innan Frakk­lands og 1 í Bret­landi. Enginn hefur greinst í Evrópu frá því um helgina.