„Við fórum í Field‘s í há­deginu og ætluðum aftur þangað að borða um hálfsex leytið, en okkur seinkaði að­eins,“ segir Hrannar Haf­steins­son, sem er staddur í Kaup­manna­höfn á­samt dóttur sinni, en þau áttu miða á tón­leika með stór­stjörnunni Harry Sty­les á Royal Arena leik­vanginum. Í næsta húsi við verslunar­mið­stöðina.

Engu hafi því munað að þau hafi verið í verslunar­mið­stöðinni á sama tíma og skot­maðurinn hóf að skjóta í allar áttir.

„Við vorum komin út af hótelinu um tuttugu mínútur yfir sex. Þá voru mikil læti og þyrlur að fljúga lágt yfir,“ segir Hrannar, og bætir við að hann hafi sam­stundis farið inn á frétta­miðilinn BT í símanum og séð hvers kyns var. Þau hafi þá farið rak­leiðis aftur inn á hótel og beðið.

„Lobbýið fylltist af alls­konar fólki í mis­jöfnu á­standi,“ segir Hrannar, og bætir við að líkt og þau feðgin hafi mikið af þeim hafi verið á leiðinni á tón­leikana. En skyndi­lega hafi hótelinu verið lokað og gestum bannað að fara út.

„Svo um átta leytið var opnað aftur og við röltum yfir á tón­leika­svæðið. Við komum þangað sirka tuttugu mínútur yfir átta og sátum inni í um klukku­tíma. Þá var tón­leikunum af­lýst,“ segir Hrannar.

Hann segir það hafa verið þrautinni þyngri að komast aftur á hótelið, en lög­regla hafi meinað fólki út­göngu og ætlað að fylgja tón­leika­gestum í lest til Værløse.

„Þetta var ekki gott fyrir okkur því hótelið er rétt við Arena. Það hefði verið skelfi­legt að lenda í hinum enda bæjarins með allt tran­sport lokað,“ segir Hrannar, og bendir á að lestar­kerfið hafi legið niðri á meðan á að­gerðunum stóð. Þó hafi hann fengið leyfi hjá lög­reglunni til að rölta yfir á hótel. „Þeir voru ekki glaðir með það,“ segir Hrannar.

Hrannar segir lögregla hafi meinað tónleikagestum útgöngu eftir að tónleikunum var aflýst og ætlað að fylgja þeim í lest til Værløse.
Mynd/Aðsend

Að­spurður segir Hrannar allt sé nú opið á svæðinu í kring, nema auð­vitað Field‘s.

„Það er frekar ró­legt allt í kring og fátt í lestum, en við erum bara nokkuð góð,“ segir Hrannar. Þá hafi þau engin nánari plön fyrir daginn og á­ætla að fljúga heim í kvöld.