Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga, segir íslensk fangelsi vera mun lakari en sambærilegir staðir á hinum Norðurlöndunum, en bæði Danir og Norðmenn, en þó sérstaklega Finnar hafi tekið forystu í endurhæfingu fanga og leiði fagmennsku á sviði raunverulegrar betrunarvistar með aðstoð félagsráðgjafa, sálfræðinga og geðlækna, svo hvatningar til náms sem sé niðurgreitt, ólíkt því sem þekkist á Íslandi.
Guðmundur Ingi er gestur Sigmundar Ernis í nýjasta þætti Mannamáls og leggur þar öll spilin á borðið eftir að hafa verið dæmdur tvisvar sinnum í tólf ára fangelsi fyrir fíkniefnasmygl á milli landa í Evrópu.
Hann segir fangelsismálayfirvöld á Íslandi öll af vilja gerð – og fangaverðir starfi að heilindum, en allt starfsfólk fangelsanna hér á landi líði fyrir stefnuleysi hins opinbera í málaflokknum, svo og fjársvelti, en stöðug hagræðingarkrafa sé á rekstur fangelsa hér á landi.
Verst af öllu sé að fangar njóti lítillar sem engrar þjónustu innan veggja fangelsanna – og í raun séu þau enn þá bara geymslustaður sem skili áfram örvingluðum mönnum út í samfélagið á nýjaleik. Og þeir séu ekki aðeins andlega niðurbrotnir heldur líka fjárhagslega.
Og Guðmundur Ingi þekkir þetta af eigin raun, en hann hefur bæði afplánað dóma sína á Íslandi og í Danmörku. Á síðarnefnda staðnum taki félagsráðgjafi á móti föngum og fyrsta spurning þeirra sé hvort viðkomandi maður beri fjárhagslegar skyldur – og ef svo er, eru lánin fryst á meðan á refsivistinni stendur, svo sem húsnæðislán.
Heima á Íslandi sé þessu akkúrat öðruvísi farið, skuldirnar safnist bara upp á meðan menn taka út sinn dóm – og þegar frelsið blasi við taki við kvíðvænlegur tími skuldasúpunnar sem hafi safnast upp allan refsitímann. Það sé ávísun á erfiðleika og annað niðurbrot.
Hér má sjá brot úr viðtali Sigmundar Ernis við Guðmund Inga í Mannamáli á Hringbraut.