Íslensk erfðagreining vinnur nú að því að reyna að búa til mótefni til lækningar á COVID-19 í samvinnu við kanadíska háskólann University of British Columbia.

Þetta kom fram í máli Kára Stefánssonar, forstjóra fyrirtækisins, á COVID-19 fræðslufundi þess rétt í þessu. Sagðist hann vonast til þess að geta leyft almenningi að fylgjast náið með verkefninu.

„Við tókum mjög mikið af hvítum blóðkornum úr fjórum einstaklingum og það var síðan sent til þessarar rannsóknarstofu við British Columbia þar sem menn hafa einangrað út hvít blóðkorn sem búa til mótefni og einangrað út þær frumur sem framleiða mótefni gegn ákveðnu [próteini] á þessari veiru.“

Hann sagði að vonast væri til þess að þetta mótefni gæti svo komið í veg fyrir að veiran komist inn í frumur líkamans.

„Þetta er mjög snemma í sögunni en samt hefur gengið alveg lygilega vel. Það er langt í það að það séu til lyf á þessum grundvelli en ég held að það sé þess virði að halda fólki upplýstu um þetta og leyfa þeim að fylgjast með.“

Hér má nálgast upptöku af fræðslufundinum þar sem meðal annars var farið yfir stöðu faraldursins, framgang hans hér á landi og reynslu heilbrigðiskerfisins.

Fréttin hefur verið uppfærð.