Íslensk erfðagreining hóf skimun á fólki í sóttkví í bílakjallara fyrirtækisins nú í morgun. 20 starfsmenn sinna skimuninni og hafa 600 verið kallaðir í sýnatöku. Áformað er að skima um 400 einstaklinga þar í dag og stefnt að því að ljúka verkinu á morgun.

Einnig hefur hópur fólks verið boðaður sem er ekki í sóttkví en hefur einhver tengsl við smitaða einstaklinga eða staði þar sem þeir hafa verið, er segir á Facebook-síðu fyrirtækisins.

Ekki er hægt að skrá sig í sýnatöku hjá Íslenskri erfðagreiningu þessa dagana þar sem nú er einungis skimað eftir listum frá rakningateymi Almannavarna. Þá er áréttað að fólk sem er kallað í sýnatöku þarf að vera áfram í sóttkví þó prófið reynist neikvætt.

Aukinn kraftur hefur verið settur í sýnatöku vegna COVID-19 eftir að innanlandssmitum tók að fjölga í lok júlí. Íslensk erfðagreining hóf aftur almenna skimun fyrir veirunni síðasta miðvikudag og setur heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu nú upp tjald við Orkuhúsið við Suðurlandsbraut til að auka sýnatökugetu.