Þrír karlar og ein kona hafa á­kærð fyrir morðið á Armando Beqirai. Í ákæru er byggt á því að um samverknað hafi verið að ræða og eru öll fjögur ákærð fyrir manndráp með samverknaði.

Brot sem framin eru í sam­verknaði sæta al­mennt þyngri refsingu en brot sem framin eru af einum ein­stak­lingi en í 70. gr. almennra hegningarlaga sem fjallar um atriði sem hafa áhrif á refsiákvörðun segir að hafi fleiri menn en einn unnið verkið í sameiningu, skuli að jafnaði taka það til greina til þyngingar refsingu.

Íslendingurinn ekki meðal ákærðu

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er Ís­lendingur sem sætti fyrst gæslu­varð­haldi og svo far­banni vegna málsins, ekki meðal ákærðu í málinu.

Angjelin Mark Sterka­j, sem er Albani eins og Armando, hefur einn játað að hafa orðið Armando að bana í Rauða­gerði í febrúar. Hann segist hafa verið einn að verki.

„Mér þykir mjög miður að fjöldi fólks, sem á engan þátt í því sem ég gerði, hafi verið bendlað við málið og jafn­vel þurft að sæta gæslu­varð­haldi, þeirra á meðal Ís­­lendingur sem hefur bæði verið opin­ber­­lega nafn­­greindur og myndir verið birtar af honum með fjöl­­miðla­um­fjöllun um málið.“ Þetta sagði Angjelin í sam­tali við Frétta­blaðið í síðasta mánuði.

Angjelin hefur setið í gæslu­varð­haldi vegna málsins í tæpar tíu vikur. Alls hafa fjór­tán verið hand­­teknir vegna málsins. Af þeim sættu, þegar mest var, níu manns í gæslu­varð­haldi.

Ekki ákært fyrir skipulagða brotastarfsemi

Ekki er ákært fyrir skipulagða brotastarfsemi en við upp­­haf rann­­sóknar lög­­reglu vaknaði grunur um að málið tengdist ein­hvers­­konar upp­­­gjöri milli brota­hópa hér á landi, bæði er­­lendum og ís­­lenskum.

Tólf voru hand­­teknir vegna málsins á fyrstu stigum rann­­sóknarinnar og tveir til við­bótar síðar.

Á blaða­manna­fundi lög­reglu sem fram fór í mars kom fram að rann­­sóknar­­gögn lög­­reglu styðji við fram­komna játningu

Fjór­tán manns höfðu réttar­­stöðu sak­­bornings í málinu þegar mest var. Sak­­borningarnir voru af ellefu þjóð­ernum.

Þegar blaða­manna­fundurinn var haldinn, rúmum mánuði eftir morðið, höfðu sau­tján leitir verið fram­­kvæmdar vegna rann­­sóknar málsins, leitað hafi verið í húsum, í bílum og á víða­vangi. Um­­ræddar leitir hafi ekki að­eins tengst meintu morð­vopni heldur miðað að því að afla sönnunar­­gagna í málinu.

Lagt hefur verið hald á ýmsa muni vegna rann­sóknarinnar þar á meðal sím­­tæki, tölvur, skot­vopn og skot­­færi. Auk þess liggur að sögn lög­reglu, fyrir fram­burður fjölda vitna og upp­­­lýsingar sem aflað hefur verið verið úr öryggis­­mynda­­vélum, sím­­tækjum og tölvum.

Skot­vopnið sjálft fannst ekki fyrr en rúmum mánuði eftir að morðið var framið, í sjó í ná­grenni höfuð­­borgar­­svæðisins.