Íslendingur vann tæpar 62 milljónir í getraunum í gærkvöldi og er þetta sagður stærsti vinningur sem Íslendingur hefur unnið í getraunum.

Var Íslendingurinn sá eini í heiminum sem var með alla 13 leikina rétta í gær á sunnudagsseðlinum, er fram kemur í tilkynningu frá Íslenskum getraunum.

Mikið var um óvænt úrslit á getraunaseðlinum í gær en umræddur miði var keyptur í sölukassa með sjálfvali.

Fyrir 13 rétta voru 52 milljónir í vinning en miðahafinn var einnig með fjölda auka vinninga sem færir honum tæplega 62 skattfrjálsar milljónir.

Að sögn Íslenskra getrauna hefur eigandi miðans ekki enn gefið sig fram.