Tveir ís­lenskir menn á fimm­tugs­aldri hafa verið á­kærðir fyrir al­var­lega líkams­á­rás á ís­lenskan mann í Dan­mörku á laugar­dag. Eins og Frétta­blaðið greindi frá á vef sínum í vikunni var á­rásin gerð á tjald­stæðinu Rødhus Klit Camping, nærri Ála­borg á Jót­landi.

Maria Odga­ard, upp­lýsinga­full­trúi lög­reglunnar á Norður-Jót­landi, segir á­stand hins 56 ára þolanda á­rásarinnar nú stöðugt.

„Fórnar­lambið er komið úr lífs­hættu. Hann fékk þó svo al­var­lega á­verka að hann hefði getað dáið ef hann hefði ekki komist undir læknis­hendur,“ segir Maria við Frétta­blaðið. Hún geti ekki sagt hvort hann sé með með­vitund eða hvernig líðan hans sé.

Á­rásin var gerð í hús­bíl á tjald­stæðinu. Þolandinn hlaut mörg bein­brot, meðal annars á höfuð­kúpu, kjálka og rif­beinum. Einnig var hann skorinn með egg­vopni í and­lit og út­limi. Hann dvelur á Há­skóla­sjúkra­húsinu í Ála­borg.

Í kjöl­far á­rásarinnar voru tveir Ís­lendingar hand­teknir á laugar­dag, en á tveimur mis­munandi stöðum.

„Við getum stað­fest að tveir grunaðir karl­menn hafa verið kærðir fyrir brot á 245. grein danskra hegningar­laga,“ segir Maria að­spurð um hina grunuðu, sem úr­skurðaðir voru í gæslu­varð­hald í kjöl­far hand­töku. Sam­kvæmt greininni geta þeir átt allt að sex ára fangelsi yfir höfði sér.