„Það var alveg vel mollulegt,“ segir tónlistarmaðurinn Davíð Rist um upplifun sína af því að vakna í Lundúnum í morgun.

„Við kærastan vöknuðum um átta leytið og lokuðum strax öllum gluggum sem við höfðum haft opna yfir nóttina til að ná hitastiginu aðeins niður,“ segir hann. „Strax um níu í morgun var hitinn að fara yfir 30 gráður.“

Hann segir þau parið alltaf hafa stóra viftu í gangi í íbúðinni. „Dagurinn í dag og gærdagurinn hafa bara farið í að gera allt sem við getum til að kæla okkur.“

Hann segist hafa byrgt alla glugga sólarmegin með hlífum sem endurkasta hitanum. „Ég þekki nokkra sem flúðu hitann til suðurstrandarinnar þar sem er ekki eins heitt.“

Davíð svarar játandi, spurður hvort að kvíði sé í fólki vegna hitans. „Ja, fólkið sem þekkir svona hitastig er kvíðið. BBC hefur verið að ítreka við fólk að taka þessu alvarlega því margir halda að þetta verði bara einhver góður sumardagur, því flestir Englendingar bara þekkja ekki svona hitastig,“ segir hann og bætir við að sér finnist viðbrögð heimamanna minna á viðbrögð Íslendinga í sömu sporum.

Davíð segir fæsta Englendinga þekkja hitastig á borð við það sem nú gengur yfir í London.
Mynd/Getty

„Það er áhugavert að bera þessa viðvörun við rauðu vind-viðvörunina í febrúar,“ segir Davíð og bendir á að allir hafi tekið þeirri viðvörun af meiri alvarleika.

„Það er auðvelt fyrir fólk að sjá hætturnar sem fylgja miklum stormi, en það tengir hita svo sterkt við sólarlandaferðir og frí að það sér það ekki eins vel,“ segir hann og bætir við að fólk hafi nú þegar dáið í Thames ánni við tilraunir til að kæla sig.

Davíð segir alls ekki ráðlegt að fara í Thames heldur ætti fólk heldur að sækja sér svalann í tjörnum í almenningsgörðum. „Það er hægt að fara í tjarnir í almenningsgörðum eins og Hampstead Heath, en helst ætti fólk að halda sig heima ef það getur, eða þá að komast eitthvert með góðri loftkælingu,“ segir hann.

Davíð segir fólki ráðið frá því að nota neðanjarðarlestarkerfið vegna þess að engin loftkæling sé þar um borð.

„BBC hefur verið að ítreka við fólk að taka þessu alvarlega því margir halda að þetta verði bara einhver góður sumardagur, því flestir Englendingar bara þekkja ekki svona hitastig“

Aðspurður hvaða áhrif það hafi á samfélagið og taktinn í hversdeginum segir hann að lestir ofanjarðar séu með loftkælingu, svo að fólk geti ferðast á milli þar um borð, snemma í dag eða mjög seint, til að vera ekki utandyra þegar mesti hitinn ríður yfir.

„Svo vinna margir að heiman náttúrulega enn þá, það er hliðarverkun frá Covid,“ segir Davíð.

Davíð vinnur sem garðyrkjumaður og segir að þar sé um að ræða líkamlega útivinnu. „Ég vildi ekki koma mér í neina hættu að fá hitaslag svo ég tók mér frí mánudag og þriðjudag,“ segir hann og bætir við að margir í fyrirtækinu hafi þó mætt og unnið hálfan dag. „Þeir tóku aðvörunum ekki of alvarlega,“ segir hann.

Aðspurður hvort að hann þekki til einhverra sem hafa orðið fyrir barðinu á hitanum svarar Davíð: „Ekki beint nei, en mágur kærustunnar minnar flúði blokkaríbúðina sína til að vinna frá kaffihúsi með loftkælingu. Íbúðin þeirra snýr beint að sól og hann hefði bara bakast þar inni,“ segir hann.

Lucy Eckersley segir alla í London þurfa að breyta plönum sínum í dag vegna hitans.
Mynd/Aðsend

Kærasta Davíðs er Lucy Eckersley sem starfar við RVC, eða Konunglega dýralæknaháskólann í London.

Lucy segist aldrei hafa upplifað neitt þessu líkt á Englandi. „Mér hefur alltaf þótt merkilegt þegar hitastigið fer yfir 30 gráður og vanalega bregst fólk við því með að fara á ströndina og allir sólbrenna hressilega,“ segir hún. Lucy er með krónískt mígreni sem hún segir hitann magna upp.

Lucy segir alla í London þurfa að breyta plönunum sínum í dag og aðlaga sig aðstæðum. „Flestir hugsa um hvernig þeir geta kælt sig niður. Daglegt líf heldur samt áfram að miklu leyti, til dæmis er fjölskyldan mín að fara í jarðarför í dag sem var ákveðið að skyldi samt fara fram,“ segir hún.

„Þau hafa reynslu af hita og hafa eytt töluverðum tíma á Spáni en hafa alltaf farið um vetur af því að þau eru ekki fólk sem reynir að eltast við hita.“

Uppfært: Fréttablaðið hafði samband við Davíð og Lucy þegar fyrir lá að eldar væru að breiðast út um Lundúnaborg. Þau segjast vera á öruggum stað og segja enga elda í sjónmáli.