Rúmlega tvítugur Íslendingur er í haldi lögreglu í Kaliforníu grunaður um morð. DV greinir frá þessu og vísar í sjónvarpstöðina KGET 17.

Maðurinn er grunaður að hafa myrt bekkjarsystur sína. Samkvæmt DV er móðir mannsins tékknesk en faðir hans íslenskur.

Hin 21 árs gamla Katie Pham fannst látin í bílskúr á heimili stjúpföður mannsins í maí síðastliðnum. Maðurinn, sem er fæddur árið 2000, var handtekinn skömmu síðar. Var hann blóðugur á höndum og á hálsi, þá fannst blóð á buxunum hans.

Íslendingurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá handtöku, samkvæmt fjölmiðlum ytra hefur hann játað á sig verknaðinn. Hefur réttarhaldi yfir honum verið frestað á meðan gert verður mat á andlegri heilsu hans.