Lögreglan á Spáni hefur handtekið 59 ára gamlan Íslending í Torre Pachecho sem grunaður er um barnaníð þar í landi. Hann var að sögn spænsku lögreglunnar dæmdur fyrir að hafa níðst á fjórum börnum hérlendis árið 1988.
Frá þessu greinir spænski miðillinn La Verdad.
Samkvæmt lögreglu áttu brotin sér stað frá síðasta sumri. Við rannsókn málsins voru bæði farsími og tölva í eigu hins grunaða hleruð og þar fannst barnaníðsefni. Hann mun hafa vingast við fórnarlömb sín og síðan gefið þeim pening.
Rannsóknin á málinu er gerð í samstarfi við Interpol og með aðstoð hennar kom í ljós að maðurinn hefur búið í Suður-Ameríku á undanförnum árum. Hinn grunaði er nú í gæsluvarðhaldi eftir að hann var færður fyrir dómara í San Javier, smábæjar í nágrenni borgarinnar Murcia á suðaustur Spáni.
Uppfært kl 12:49: Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá alþjóðasviði ríkislögreglustjóra, staðfestir í samtali við Fréttablaðið að hinn grunaði sé íslenskur og að fyrirspurn hafi borist frá spænsku lögreglunni í mars vegna málsins. Unnið hafi verið að því í samstarfi við spænsku lögregluna sem fari með rannsókn málsins.