Eldgos er hafið á eyjunni La Palma á Kanaríeyjum. Gosið hófst á fjórða tímanum í dag í eldfjallinu Rajada. Töluverð skjálftavirkni hafði verið í kringum fjallið frá 11. september í mikil spenging varð áður en gosmökkur reis upp úr fjallinu.
Ríkisútvarpið ræddi við Íslendinginn Þórarinn Einarsson sem er staddur á La Palma í fríi og fylgist þar með gosinu. Að sögn Þórarins er meiri hætta af skógareldum en hrauni á þessum tímapunkti.
„Ég sé elda sem eru mjög nálægt húsaþyrpingum þannig að það er örugglega ekkert langt í það að einhver hús verði skógareldum að bráð. Ég sé enn þá allavega ekki neitt hraunrennsli Það voru skógareldar hérna í fyrra sem ollu talsverðum skemmdum þannig að ég hugsa að fólk muni fyrst óttast þá,“ segir Þórarinn.
Hann hefur dvalið á eynni í um tvær vikur í bústað norðan við gosið. Þegar hann heyrði fréttirnar í spænskum fjölmiðlum að gos væri byrjað dreif hann sig upp á fjall í grennd við bústaðinn þar sem hann gat séð gosmökkinn og heyrði sírenuvæl og drunur.
Þórarinn hljómar nokkuð brattur þegar hann er spurður um hvort þetta sé ógnvekjandi.
„Ég er allavega ekki að skjálfa neitt þegar ég horfi á þetta en engu að síður var smæð eyjunnar, óvissan og alls konar svör nokkuð ógnvekjandi fyrir, en ég er að minnsta kosti alveg rólegur horfandi á þetta núna.“
Hann segir að hann hafi ekki fengið fyrirmæli um að rýma þurfi hverfið sem hann gistir í.
„Ég held að ég verði um kyrrt en ég á svo sem bókað flug núna á fimmtudaginn og er ekkert bjartsýnn að af því verði.
Þórarinn segist alls ekki hafa búist við þessu þegar hann lagði af stað í fríið.
„Nei, ég átti nú alls ekki von á þessu en það virðist bara vera eldgos sama hvar maður er,“ segir Þórarinn.