Eld­gos er hafið á eyjunni La Palma á Kanarí­eyjum. Gosið hófst á fjórða tímanum í dag í eld­fjallinu Rajada. Tölu­verð skjálfta­virkni hafði verið í kringum fjallið frá 11. septem­ber í mikil spenging varð áður en gos­mökkur reis upp úr fjallinu.

Ríkis­út­varpið ræddi við Ís­lendinginn Þórarinn Einars­son sem er staddur á La Palma í fríi og fylgist þar með gosinu. Að sögn Þórarins er meiri hætta af skógar­eldum en hrauni á þessum tíma­punkti.

„Ég sé elda sem eru mjög ná­lægt húsa­þyrpingum þannig að það er örugg­lega ekkert langt í það að ein­hver hús verði skógar­eldum að bráð. Ég sé enn þá alla­vega ekki neitt hraun­rennsli Það voru skógar­eldar hérna í fyrra sem ollu tals­verðum skemmdum þannig að ég hugsa að fólk muni fyrst óttast þá,“ segir Þórarinn.

Hann hefur dvalið á eynni í um tvær vikur í bú­stað norðan við gosið. Þegar hann heyrði fréttirnar í spænskum fjöl­miðlum að gos væri byrjað dreif hann sig upp á fjall í grennd við bú­staðinn þar sem hann gat séð gos­mökkinn og heyrði sí­renu­væl og drunur.

Þórarinn hljómar nokkuð brattur þegar hann er spurður um hvort þetta sé ógn­vekjandi.

„Ég er alla­vega ekki að skjálfa neitt þegar ég horfi á þetta en engu að síður var smæð eyjunnar, ó­vissan og alls konar svör nokkuð ógn­vekjandi fyrir, en ég er að minnsta kosti alveg ró­legur horfandi á þetta núna.“

Hann segir að hann hafi ekki fengið fyrir­mæli um að rýma þurfi hverfið sem hann gistir í.

„Ég held að ég verði um kyrrt en ég á svo sem bókað flug núna á fimmtu­daginn og er ekkert bjart­sýnn að af því verði.

Þórarinn segist alls ekki hafa búist við þessu þegar hann lagði af stað í fríið.

„Nei, ég átti nú alls ekki von á þessu en það virðist bara vera eld­gos sama hvar maður er,“ segir Þórarinn.