Töluverð fólksfjölgun hefur verið hér á landi síðustu ár en Íslendingum hefur fjölgað um rúmlega hundrað þúsund manns frá árinu 1990 og er nú heildarfjöldi íbúa rétt tæp 357 þúsund að því er kemur fram í State of the Nordic Region skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar. Af þeirri fjölgun voru 28 prósent, eða 71 þúsund, í gegnum náttúrulega fólksfjölgun þar sem fæðingar eru fleiri en dauðsföll og 12,5 prósent, tæp 32 þúsund, í gegnum fólksflutninga.
Meðaltal fólksfjölgunar á öllum Norðurlöndunum var 17,7 prósent á sama tímabili og voru Noregur og Álandseyjarnar með mestu fólksfjölgunina að Íslandi undanskildu. Nánast öll Norðurlöndin voru með fólksfjölgun í gegnum fólksflutninga nema Grænland og Færeyjar en að meðaltali áttu fólksflutningar stærri þátt í aukningu íbúa heldur en náttúruleg fólksfjölgun..

Fæðingartíðni lækkað töluvert síðasta áratug
Fæðingartíðni hefur lækkað hjá nánast öllum Norðurlöndunum og hefur hún aldrei verið lægri hjá Íslandi, Noregi og Finnlandi. Til að mynda hefur fæðningartíðni í Finnlandi dottið niður úr 1,9 í 1,4 og ef fæðingartíðnin breytist ekki má búast við því innan 15 ára að engin landsvæði Finnlands verði með fleiri fæðingar en dauðsföll.
Að því er kemur fram í skýrslunni þarf fæðingartíðnin að vera um 2,1 barn á hverja konu til að stuðla að náttúrulegri fólksfjölgun. Ísland var með fæðingartíðnina 2,2 fyrir 10 árum, árið 2009, en nú er sú tíðni komin niður í 1,7. Eina landið sem viðheldur þeirri fæðingartíðni sem þarf fyrir náttúrulega fólksfjölgun eru Færeyjar þar sem tíðnin er 2,5 börn á hverja konu. Þá hefur fjöldi kvenna sem eignast barn eftir 35 ára aldur hækkað þar sem sífellt fleiri konur bíða með barnseignir þar til þær hafa lokið námi.
Íslendingar eru með stysta tímann í fæðingarorlof árið 2019, 40 vikur á meðan Danmörg og Finnland eru með 52 vikur, en lengd fæðingarorlofs lengdist í 52 vikur um áramótin. Þrátt fyrir að Íslendingar séu með stysta fæðingarorlofið þá fer hlutfallslega mestur tími til feðra eða um 30 prósent. Svíar koma þar á eftir með 27 prósent en heildartími fæðingarorlofs þar er 68 vikur.

Auknar lífslíkur á Norðurlöndunum
Eins og staðan er í dag er meira af fólki yfir 65 ára aldri heldur en börn í Danmörku, Finnlandi, Svíþjóð og á Álandseyjum en fleiri börn eru á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi. Fólk er þó að meðaltali eldra hjá öllum Norðurlöndunum en samhliða því hafa rannsóknir sýnt fram á betri heilsu og má búast við að fólk verði lengur á vinnumarkaðinum heldur en nú.
Lífslíkur hafa aukist stöðugt í Evrópu síðustu áratugi og eru nú lífslíkur í meira en tveir þriðju Evrópusambandslandanna yfir 80 ár. Konur lifa að meðaltali fimm og hálfu ári lengur en karlmenn en þó hafa lífslíkur karlmanna aukist töluvert.
Í skýrslunni mánálgast frekari upplýsingar um lýðfræði á Norðurlöndunum ásamt upplýsingum um vinnumarkaði og hagkerfi. Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér