Tölu­verð fólks­fjölgun hefur verið hér á landi síðustu ár en Ís­lendingum hefur fjölgað um rúm­lega hundrað þúsund manns frá árinu 1990 og er nú heildar­fjöldi íbúa rétt tæp 357 þúsund að því er kemur fram í State of the Nordic Region skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar. Af þeirri fjölgun voru 28 prósent, eða 71 þúsund, í gegnum náttúru­lega fólks­fjölgun þar sem fæðingar eru fleiri en dauðs­föll og 12,5 prósent, tæp 32 þúsund, í gegnum fólks­flutninga.

Meðal­tal fólks­fjölgunar á öllum Norður­löndunum var 17,7 prósent á sama tíma­bili og voru Noregur og Álands­eyjarnar með mestu fólks­fjölgunina að Ís­landi undan­skildu. Nánast öll Norður­löndin voru með fólks­fjölgun í gegnum fólks­flutninga nema Græn­land og Fær­eyjar en að meðal­tali áttu fólks­flutningar stærri þátt í aukningu íbúa heldur en náttúru­leg fólks­fjölgun..

Hér má sjá fólksfjölgun hjá Norðurlöndunum frá árinu 1990 til 2019.
Mynd/Norræna ráðherranefndin

Fæðingartíðni lækkað töluvert síðasta áratug

Fæðingar­tíðni hefur lækkað hjá nánast öllum Norður­löndunum og hefur hún aldrei verið lægri hjá Ís­landi, Noregi og Finn­landi. Til að mynda hefur fæðningar­tíðni í Finn­landi dottið niður úr 1,9 í 1,4 og ef fæðingar­tíðnin breytist ekki má búast við því innan 15 ára að engin land­svæði Finn­lands verði með fleiri fæðingar en dauðs­föll.

Að því er kemur fram í skýrslunni þarf fæðingar­tíðnin að vera um 2,1 barn á hverja konu til að stuðla að náttúru­legri fólks­fjölgun. Ís­land var með fæðingar­tíðnina 2,2 fyrir 10 árum, árið 2009, en nú er sú tíðni komin niður í 1,7. Eina landið sem við­heldur þeirri fæðingar­tíðni sem þarf fyrir náttúru­lega fólks­fjölgun eru Fær­eyjar þar sem tíðnin er 2,5 börn á hverja konu. Þá hefur fjöldi kvenna sem eignast barn eftir 35 ára aldur hækkað þar sem sí­fellt fleiri konur bíða með barns­eignir þar til þær hafa lokið námi.

Ís­lendingar eru með stysta tímann í fæðingar­or­lof árið 2019, 40 vikur á meðan Dan­mörg og Finn­land eru með 52 vikur, en lengd fæðingar­or­lofs lengdist í 52 vikur um ára­mótin. Þrátt fyrir að Ís­lendingar séu með stysta fæðingar­or­lofið þá fer hlut­falls­lega mestur tími til feðra eða um 30 prósent. Svíar koma þar á eftir með 27 prósent en heildar­tími fæðingar­or­lofs þar er 68 vikur.

Fæðingarorlof á Norðurlöndunum og hlutfall feðraorlofs.
Mynd/Norræna ráðherranefndin

Auknar lífslíkur á Norðurlöndunum

Eins og staðan er í dag er meira af fólki yfir 65 ára aldri heldur en börn í Dan­mörku, Finn­landi, Sví­þjóð og á Á­lands­eyjum en fleiri börn eru á Ís­landi, Fær­eyjum og Græn­landi. Fólk er þó að meðal­tali eldra hjá öllum Norður­löndunum en sam­hliða því hafa rann­sóknir sýnt fram á betri heilsu og má búast við að fólk verði lengur á vinnu­markaðinum heldur en nú.

Lífs­líkur hafa aukist stöðugt í Evrópu síðustu ára­tugi og eru nú lífs­líkur í meira en tveir þriðju Evrópu­sam­bands­landanna yfir 80 ár. Konur lifa að meðal­tali fimm og hálfu ári lengur en karl­menn en þó hafa lífs­líkur karl­manna aukist tölu­vert.

Í skýrslunni mánálgast frekari upp­lýsingar um lýð­fræði á Norður­löndunum á­samt upp­lýsingum um vinnu­markaði og hag­kerfi. Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér