Utan­ríkis­þjónustan vinnur enn að því að ná Ís­lendingunum sem dvelja í Kabúl úr landi. Upp­lýsinga­full­trúi Utan­ríkis­ráðu­neytisins segir stöðuna vera ó­breytta en fólkið öruggt enn sem komið er.

„Staðan er ó­breytt, fólk er enn þá á sínum stað og er öruggt og á­standið í borginni og landinu er ó­tryggt. Við erum í nánu sam­bandi við þau og erum að leita allra leiða til þess að koma þeim heim sem allra fyrst,“ segir Sveinn H. Guð­mars­son, upp­lýsinga­full­trúi Utan­ríkis­ráðu­neytisins.

Á þriðju­dag var greint frá því að annar tveggja Ís­­lendinga sem sinnt hafa verk­efnum fyrir At­lants­hafs­banda­lagið í Af­gan­istan hafi komist til Sam­einuðu arabísku fursta­­dæmanna. Annar ís­lenskur starfs­maður NATO er þó enn staddur í Kabúl og tvær ís­lenskar fjöl­skyldur á­samt börnum, sam­tals tíu manns.

Sveinn segir helstu á­skorunina vera að komast inn á flug­vallar­svæðið en mikil ringul­reið hefur verið í kringum Hamir Karzai al­þjóða­flug­völlinn undan­farna viku er tug­þúsundir manns freista þess að komast úr landi.

„Það er tals­vert af flugi en það að komast um borgina og inn á flug­vallar­svæðið er á­kveðin á­skorun,“ segir Sveinn.

Tug­þúsund föst í landinu

Í frétt The Guar­dian frá því í morgun var greint frá því að tug­þúsundir er­lendra ríkis­borgara og Af­gana sem unnið hafa fyrir banda­ríska herinn og At­lants­hafs­banda­lagið séu enn strandaðir í Afgan­istan. Ríkis­stjórnir keppast nú við að gefa út vega­bréfs­á­ritanir og reyna að koma ríkis­borgurum sínum á flug­völlinn í gegnum eftir­lits­stöðvar Tali­bana víðs vegar um Kabúl.

Sam­­kvæmt á­ætlunum Banda­­ríkja­­stjórnar eiga síðustu banda­rísku her­­mennirnir að yfir­­­gefa Afgan­istan 31. ágúst en Joe Biden Banda­­ríkja­­for­­seti sagði á mið­viku­dag að mögu­lega verði eitt­hvað her­lið í Af­gan­istan lengur.

Sam­kvæmt upp­lýsingum Hvíta hússins hafa um 9000 Banda­ríkja­menn verið fluttir frá Afgan­istan frá því 14. ágúst. Tölur um hversu margir Banda­ríkja­menn þarfnast enn brott­flutnings frá Afgan­istan eru á reiki en þeir eru taldir vera á bilinu 11 til 15.000.

Vopnaðir Talibanar reyna að ná stjórn á múg er mótmælti í miðborg Kabúl í gær.
Fréttablaðið/Getty

Af­ganskir sam­verka­menn í mikilli hættu

Þá er talið að tug­þúsundum Af­gana stafi ógn af því að vera á­fram í landinu vegna tengsla þeirra við er­lendar ríkis­stjórnir. Fjöl­margar frá­sagnir hafa heyrst af því að víga­menn Tali­bana gangi hús úr húsi í leit að sam­verka­mönnum af­gönsku ríkis­stjórnarinnar og neytt þá til að ganga til liðs við Tali­bana.

Þýsk sjón­varps­stöð greindi frá því að fjöl­skyldu­með­limur eins frétta­manna þeirra hafi verið skotinn til bana af Tali­bönum þegar þeir leituðu að frétta­manninum, en hann hafði þá þegar flúið Afgan­istan.

Þýsk fé­laga­sam­tök segjast hafa lokað skjóls­húsi sínu fyrir Af­gana sem hafa unnið með her­náms­liði og lýst þeim sem dauða­gildrum.

„Tali­banarnir eru að fara hús úr hús að leita að heima­mönnum. Þetta var fyrir­sjáan­legt og Tali­banar hafa þegar heim­sótt eitt skjóls­húsið. Guði sé lof að það var tómt,“ segir Marcus Grotian, þýskur her­maður sem starfar fyrir sam­tökin.