Ís­lensk kona á sjö­tugs­aldri og karl­maður á sex­tugs­aldri sem sett voru í ein­angrun á Spáni í gær reyndist ekki vera smitað af kóróna­veirunni eins og fyrst var talið en þetta staðfestir María Mjöll Jónsdóttir, deildastjóri hjá Utanríkisráðuneytinu, í samtali við Fréttablaðið. Þrátt fyrir að maðurinn hafi ekki fundið fyrir ein­kennum voru þau bæði sett í ein­angrun og sýni úr þeim tekin.

Haft var eftir spænska miðlinum Ca­da­ne SER í gær að parið hafi verið í Torra­vi­eja í fríi og hafi leitað til sjúkra­hússins í borginni eftir að annað þeirra fór að finna fyrir ein­kennum lungna­sjúk­dómsins, hita og hósta. Þau höfðu ný­lega verið í Wu­han í Kína og voru því sett í ein­angrun sam­kvæmt verk­ferlum sjúkra­hússins.

Smit komið upp utan Kína

Líkt og áður hefur greint frá hafa meira en hundrað manns dáið af völdum veirunnar sem kom upp­runa­lega upp í Wu­han. Veiran getur smitast á milli manna en ekki er vitað hversu smitandi hún er. Al­þjóða­heil­brigðis­stofnunin hefur varað við að lík­legt sé að heims­far­aldur geti brotist út.

Tilkynnt hefur verið um smit utan Kína og er búið að staðfesta smit meðal 44 einstaklinga, meðal annars í Bandaríkjunum, Finnlandi, Frakklandi og Ástralíu. Þá hefur óvissustigi almannavarna verið lýst yfir hér á landi en engin tilfelli hafa komið upp hér á landi enn sem komið er.