Íslensk kona á sjötugsaldri og karlmaður á sextugsaldri sem sett voru í einangrun á Spáni í gær reyndist ekki vera smitað af kórónaveirunni eins og fyrst var talið en þetta staðfestir María Mjöll Jónsdóttir, deildastjóri hjá Utanríkisráðuneytinu, í samtali við Fréttablaðið. Þrátt fyrir að maðurinn hafi ekki fundið fyrir einkennum voru þau bæði sett í einangrun og sýni úr þeim tekin.
Haft var eftir spænska miðlinum Cadane SER í gær að parið hafi verið í Torravieja í fríi og hafi leitað til sjúkrahússins í borginni eftir að annað þeirra fór að finna fyrir einkennum lungnasjúkdómsins, hita og hósta. Þau höfðu nýlega verið í Wuhan í Kína og voru því sett í einangrun samkvæmt verkferlum sjúkrahússins.
Smit komið upp utan Kína
Líkt og áður hefur greint frá hafa meira en hundrað manns dáið af völdum veirunnar sem kom upprunalega upp í Wuhan. Veiran getur smitast á milli manna en ekki er vitað hversu smitandi hún er. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur varað við að líklegt sé að heimsfaraldur geti brotist út.
Tilkynnt hefur verið um smit utan Kína og er búið að staðfesta smit meðal 44 einstaklinga, meðal annars í Bandaríkjunum, Finnlandi, Frakklandi og Ástralíu. Þá hefur óvissustigi almannavarna verið lýst yfir hér á landi en engin tilfelli hafa komið upp hér á landi enn sem komið er.