Íslensk stjórnvöld telja núverandi samninga er koma inn á veiðar á úthöfum fullnægjandi og leggja áherslu á að nýr úthafssáttmáli Sameinuðu þjóðanna verði aðeins til viðbótar og stuðnings.

Eins og frettabladid.is greindi frá hefur hörð afstaða Íslendinga, Rússa, Norðmanna og Japana verið ein helsta ástæða þess að ekki hefur tekist að gera úthafssáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Samkvæmt Pétri Halldórssyni, fyrrverandi formanni Ungra umhverfissinna, sem hefur setið fundi hjá Sameinuðu þjóðunum, hefur sendinefnd Íslands farið fram á að fiskveiðar verði algerlega undanskildar. Það sé óhugsandi þar sem fiskveiðar sé ein helsta ástæðan fyrir því að verið sé að semja sáttmálann sem heildarumgjörð um nýtingu og vernd úthafanna.

„Ísland hefur lagt áherslu á að samningurinn styðji og komi til viðbótar við núverandi regluverk, hafréttarsamninginn og úthafsveiðisamninginn, sem nú þegar mynda fullnægjandi lagaramma fyrir veiðar á úthafinu,“ segir í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins.

„Ísland hefur undirstrikað mikilvægi þess að víðtæk sátt náist um niðurstöður viðræðnanna til þess að sem flest ríki verði aðilar að samningum í framtíðinni,“ segir áfram í svarinu.

Matvælaráðuneytið vildi ekki svara efnislega þrátt fyrir að hafa svarað sambærilegri fyrirspurn í tíð fyrri ráðherra sjávarútvegsmála.

„Um er að ræða flóknar, tæknilegar samningaviðræður um mörg ólík efni og erfitt hefur reynst að ná sátt um ýmis atriði. Vonir standa til að það takist í viðræðulotunni sem nú stendur yfir og þar mun Ísland ekki láta sitt eftir liggja,“ segir í svari utanríkisráðuneytisins.