Nokkur óánægja ríkir innan ferðaþjónustunnar með framkvæmd skimunar á ferðamönnum hérlendis.

Ingólfur Blöndal, stofnandi ferðaþjónustunnar NATO (North American Tour Organization), er sár­óánægður með það að möguleiki á hópskimunum ferðahópa sé ekki fyrir hendi.

„Ég er búinn að vera með þessar ferðir til Íslands í fleiri ár og er með hóp þar núna,“ segir Ingólfur.

Að því er Ingólfur segir er um að ræða ferðamenn sem bókuðu ferðina í árslok 2019 en urðu síðan að fresta henni út af Covid í heilt ár.

„Nú er þetta fólk loksins komið til Íslands og er mjög ánægt, allt í besta gangi. Allt nema þessi helvítis skimun, sem ég kalla nú Rabbit Test,“ segir Ingólfur óánægður.

„Ég hélt að þetta væri ekkert mál, að maður gæti hringt niður í einhverja stofnun og fengi pláss,“ heldur Ingólfur áfram.

„Ég bjóst við að geta bara pantað tíma fyrir hópinn til að koma í sínum rútubíl og það myndi kannski taka hálftíma, klukkutíma að ganga frá þessu. En nú er ég búinn að vera í sambandi við öll yfirvöld á Íslandi og öll segja mér að það sé ekki hægt að gera þetta fyrir hóp. Hver einstaklingur verður að sækja um fyrir sig.“

Að sögn Ingólfs er verið að vinna í nýrri vefsíðu fyrir skimanir en enn hvorki búið að setja hana upp né sé vitað hvenær hún verður sett í gang.

„Það þýðir að mitt fólk verður að sjá um þetta sjálft. Það er búið að sitja á Hótel Vestmannaeyjum í tvö kvöld að berjast fyrir þessu. Íslendingar eru ennþá ekki búnir að læra á þetta. Þeir vilja túristadollarann en geta ekki unnið fyrir honum.“

Ingólfur bendir á að í Mexíkó og öðrum löndum í kringum Bandaríkin geti ferðamenn fengið skimun fyrir Covid-19 á hóteli.

„Ég auðvitað skil að það er ekki hægt að gera það í Vestmannaeyjum, Hornafirði eða Skaftafelli, en að það sé ekki hægt í Reykjavík er bara ekki nógu gott!“ undirstrikar Ingólfur hneykslaður.

„Nú eru Bandaríkjamenn stærsti ferðamannahópurinn á Íslandi. Þeir eru meginstoðin við túrismann eins og er og yfirvöld á Íslandi hefðu átt, nákvæmlega eins og Mexíkóar, að sjá um þetta,“ segir Ingólfur Blöndal.