Samkvæmt endurskoðaðri miðspá Hagstofu Íslands er áætlað að íbúar landsins verði 445 þúsund árið 2069, fyrri spá gerði ráð fyrir að þeir yrðu 461 þúsund.

Mest er gert ráð fyrir að íbúar verði 527 þúsund í lok spátímabilsins en minnst 370 þúsund.

Graf/Hagstofa Íslands

Engar breytingar verða á áætlaðri meðalævi landsmanna í endurskoðaðri spá miðað við þá fyrri en samkvæmt henni verða dánir fleiri en fæddir á hverju ári frá og með árinu 2060 en frá og með árinu 2037 samkvæmt lágspánni.

Hins vegar fæðast fleiri en deyja á hverju ári spátímabilsins samkvæmt háspánni. Meðalævi karla og kvenna við fæðingu mun halda áfram að lengjast. Nýfæddar stúlkur árið 2020 geta vænst þess að verða 84,1 ára gamlar en nýfæddir drengir 79,9 ára. Stúlkur sem fæðast árið 2068 geta vænst þess að verða 88,7 ára en drengir 84,4 ára.

Endurskoðun Hagstofunnar felst í því að gert var nýtt líkan fyrir búferlaflutninga erlendra ríkisborgara til að bæta aldursdreifingu mannfjöldans yfir spátímabilið. Nýtt líkan tekur mið af komu til landsins, dvalartíma og aldri og tekur áætlaður brottflutningur erlendra ríkisborgara frá landinu nú mið af þeim atriðum.

Mannfjöldaspá Hagstofu Íslands felur í sér framreikning á mannfjölda fyrir tímabilið 2020-2069 á grundvelli tölfræðilíkana fyrir búferlaflutninga, frjósemi og dánartíðni. Birt eru þrjú afbrigði af framreikningnum, þ.e. miðspá, háspá og lágspá, sem byggja á mismunandi forsendum um hagvöxt til næstu fimm ára, frjósemishlutfalli og búferlaflutningum. Auk þess sýnir spáin þróun og samsetningu mannfjöldans á tímabilinu.