Samkvæmt nýrri könnun Evrópusambandsins eru Íslendingar áhyggjulausari eða kærulausari hvað varðar persónuupplýsingar sínar á netinu og reiðubúnari að deila þeim en aðrar Evrópuþjóðir. Helst er það landfræðileg staðsetning sem Íslendingar eru tregastir að gefa upp.

77 prósent Íslendinga vita að hægt er að nota vefkökur (e. cook­ies) til þess að fylgjast með netnotkun viðkomandi og 33 prósent hafa breytt stillingum á netvafra til að stöðva vefkökur. Þetta er undir meðaltali Evrópusambandsins og EES-ríkja, sem er 80 og 36 prósent.

Evrópusambandið setti einmitt sérstaka reglugerð um vefkökur árið 2011 sem skikka þá sem halda úti vefsíðum til að hafa slíkar kökur sem valkost, enda geta þær safnað upplýsingum í markaðslegum tilgangi. Birtist hann gjarnan sem borði neðst á hverri vefsíðu.

Í flestum liðum könnunarinnar eru það Hollendingar og Finnar sem eru meðvitaðastir um sínar persónuupplýsingar og síst reiðubúnir til að gefa þær upp. Á hinum endanum eru Ítalir og Balkanþjóðir á borð við Búlgara og Rúmena.

51 prósent Íslendinga neitar að leyfa notkun á upplýsingum um sig í auglýsingatilgangi samkvæmt könnuninni. Aftur er þetta undir Evrópumeðaltalinu, sem er 53 prósent. Þá athuga 35 prósent hvort vefsvæði sem persónuupplýsingar eru hýstar á séu örugg, sem er einu prósenti undir Evrópumeðaltalinu.

Samfélagsmiðlar og ýmsar aðrar vefsíður safna gögnum um notendur sína og selja gjarnan sem pakka til fyrirtækja, samtaka eða stjórnmálaflokka. Eins og bandaríski myndhöggvarinn Richard Serra mælti fyrir nærri hálfri öld: „Ef eitthvað er ókeypis, þá ert þú varan.“

Skilmálalæsi

Aðeins 5 prósent Íslendinga hafa beðið leitarvél eða annað vefsvæði að eyða gögnum um sig eða fá aðgang að þeim. Hinn svokallaði réttur til að gleymast hefur orðið sífellt fyrirferðarmeiri í umræðunni og er meðal annars tryggður í íslensku persónuverndarlögunum. Evrópumeðaltalið er reyndar ekki nema 10 en hlutfall Íslands er eitt það lægsta í álfunni. Í Austurríki hefur nærri þriðjungur krafið vefsíður um þetta.

Íslendingar eru þó ekki alveg værukærir að öllu leyti. 39 prósent segjast lesa skilmála sem birtir eru á vefsíðum sem er á pari við Evrópu. 44 prósent takmarka hvað allir geta séð á samfélagsmiðlum, það er eru með lokaðan „prófíl“, og 27 prósent hafa notað hugbúnað til þess að erfiðara sé að fylgjast með netnotkun sem er yfir meðaltalinu.

Einn flokkur sker sig þó úr hjá landanum, en það er hversu margir neita að gefa upp landfræðilega staðsetningu, sé það í boði. 78 prósent vilja ekki að vefsíður viti að þeir séu á Fróni sem er 30 prósentum yfir Evrópumeðaltalinu og aðeins Hollendingar eru með hærra hlutfall.