Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur samþykkt tvær megintillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis sem munu taka gildi næsta föstudag og gilda til 30. apríl.

Áfram verður í gildi tvöföld skimun við landamærin en frá og með föstudegi, 19. febrúar, verður gert ráð fyrir að fólk framvísi neikvæðu PCR prófi við landamærin, þ.e. skírteini sem sýnir fram á neikvætt COVID-19 sýni. Skírteinið má ekki vera eldra en 72 tíma gamalt. PCR prófin munu svo taka alveg við þann 1. maí.

Ráðherrar ræddu við blaðamenn fyrir utan Ráðherrabústaðinn í dag að loknum ríkisstjórnarfundi. Þar kom fram að reglurnar muni gilda um alla, þar á meðal Íslendinga.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að enn eigi eftir að fara betur yfir framkvæmdina varðandi bólusetningar og skírteini á landamærum. Rætt var á ríkisstjórnarfundi um víðtækari heimildir fyrir sóttvarnahús ef fólk getur ekki sannað dvalarstað.

„Til að skylda fólk í sóttvarnarhús þarf að vera óljóst hvort fólk hafi dvalarstað hér,“ sagði Svandís.