„Við eigum nokkur mál þar sem Tinder kemur við sögu og er notað til að skapa ranghugmyndir um samband en ekki þar sem brotaþolar hitta viðkomandi,“ segir Jökull Gíslason, rannsóknarlögreglumaður í fjármunabrotum og netglæpum hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, um tíðni netglæpa með íslenskum brotaþolum, í tengslum við stefnumótaforritið Tinder.

Norska heimildarmyndin The Tinder Swindler var frumsýnd á Netflix nýleg. Þar er rakin saga Simons Leviev, Tinder-svindlarans svokallaða, sem notaði stefnumótaforritið Tinder til að tæla fjölda kvenna og svindla út úr þeim miklar fjárhæðir, á þeim forsendum að hann væri moldríkur erfingi ísraelsks demantaveldis á flótta. Þolendur hans urðu sumir gjaldþrota og sakfelling gekk erfiðlega. Maðurinn gengur laus í dag.

Jökull segir að yfirleitt sé aðferðin í þessum brotum áþekk. Gerandi skapi lygasögu, gefi til kynna sterka stöðu en að hann þurfi tímabundinn stuðning. „En þetta er yfirleitt eingöngu með tölvupóstsamskiptum, enda þarftu að vera ansi kræfur til að hitta manneskjurnar og standa undir lyginni í lifanda lífi.“

Jökull segir að Tinder-svindlarinn sé kominn skrefinu lengra. „Þar er svindlarinn óhræddur við að koma fram, láta sig sjást, enda þykist hann ekki vera frægur maður, heldur ríkur maður,“ segir Jökull sem man ekki eftir neinu sem líkist því máli hérlendis, en segir að lygasögur séu ekki óþekkt hegðunarmynstur í margs konar atvikum.

Jökull segir þolendur glæpa af þessu tagi yfirleitt í aldurshópnum 50 ára og eldri. „Þetta er fólk með gat á sálinni, sérstaklega eftir skilnað,“ útskýrir hann. „Það er vöntun í lífi þeirra og þessi lygi fyllir upp í allt.“ Þá séu dæmi um þolendur á áttræðisaldri, einstaklinga sem enn séu virkir á stefnumótamarkaðinum.

Að sögn Jökuls er stigsmunur sé á körlum og konum í þessu samhengi. Í tilfelli kvenna séu svikin flóknari og gerandi gefi sér tíma til að undirbyggja þau, búa til sögu og skapa traust. „Ekki er verra þegar það skapar móðurlegar tilfinningar hjá konunnni, eins og henni finnist hún sérstök. Saga um að hundurinn eða vinur hafi dáið.“

Hann bendir á að í tilfelli karla komi loforð um kynlíf miklu fyrr.

Samkvæmt alþjóðlegri flokkun í netglæpafræðum er Ísland svokallað „victim-country“, þar sem íbúar hér eru gríðarlega tekjuháir á alþjóðlegan mælikvarða. Því eru Íslendingar vinsæl skotmörk netglæpamanna. „Við erum þannig líklegri til að sjá brot þar sem brotaþolinn er í okkar landi,“ segir Jökull.

Hvað varðar leiðir til að verjast netglæpum af þessum toga sé mikilvægt að skoða prófíl viðkomandi með gagnrýnum huga. Beiðnir um lán eða stórkostlegar sögur séu alltaf varasamar.

Jökull bendir á að gagnlegt sé að skoða prófíla í tölvu því að þar vanti atriði sem prýða eðlilegan prófíl. Í síma sjáist það ekki eins vel. „Vinamynstrið er óeðlilegt og viðkomandi á enga vini sem eru í nærumhverfi,“ segir hann. Þá sé mikilvægt að gúggla viðkomandi og athuga hvort manneskjan sé yfirhöfuð til.

Hann bendir á að upp hafi komið mál hérlendis þar sem gerendur breyta fréttagreinum. „Þú þarft ekki svakalega kunnáttu til að breyta einhverju í Photoshop eða búa til falskar fjölmiðlagreinar til að deila með einhverjum.“