Á þriðja tug Ís­lendinga frá sveitar­fé­lögum og fyrir­tækjum hafa skráð sig í þriggja daga leið­angur til Dan­merkur til að kynna sér þekkingu Dana á sam­spili ferða­þjónustu og beislunar vindorku.

„Danir búa að reynslu sem við höfum ekki á þessu sviði,“ segir Nótt Thor­berg, fram­kvæmda­stjóri Græn­vangs, sam­starfs­vett­vangs at­vinnu­lífs og stjórn­valda um lofts­lags­mál og grænar lausnir.

Ferðin er skipu­lögð af Sta­te of Green sem er sam­starfs­vett­vangur stjórn­valda í Dan­mörku og fyrir­tækja þar um kynningu á grænum lausnum.

Leið Ís­lendinga liggur til Jót­lands og Samsø og heim­sótt verða sveitar­fé­lög, fyrir­tæki, hags­muna­sam­tök í ferða­málum og náttúru­vernd og aðrir sem koma að nýtingu vindorku. Varpa á ljósi á sam­starf stjórn­valda, at­vinnu­lífs og annarra við nýtingu vindorku.

„Það er á­nægju­legt að sjá að margir hafa skráð sig eða eru að í­grunda að taka þátt því þarna gefst tæki­færi til að sjá hvernig Danir hafa gert þetta,“ segir Nótt og minnir á að þessi frænd­þjóð okkar hafi hálfrar aldar reynslu í nýtingu vindorku eftir upp­byggingar­skeið upp úr 1970 í kjöl­far olíu­kreppu sem þá var. „Það er síðan alltaf mats­at­riði hvernig það kallast á við okkar að­stæður.“

Að því er Nótt segir hafa þegar um 20 til 30 manns skráð sig. Ekki sé um að ræða boðs­ferð af hálfu Dana því þátt­tak­endur greiði sjálfir ferðir, uppi­hald og gistingu þótt Danir miðli af þekkingu sinni án endur­gjalds.