Brottfarir Íslendinga voru tæplega 72 þúsund í október, en ekki hafa mælst jafn margar brottfarir í einum mánuði það sem af er ári og aldrei jafn margar í októbermánuði frá upphafi. Síðasti mánuður var því með öðrum orðum metmánuður í utanferðum.
„Þetta staðfestir að Íslendingar haga sér eins og aðrar þjóðir, ferðavilji þeirra var orðinn mikill og þráin rík og uppsöfnuð til að komast af stað,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Tæplega 159 brottfarir voru frá Keflavíkurflugvelli í síðasta mánuði, en samkvæmt upplýsingum Isavia er um að ræða fjórða fjölmennasta októbermánuðinn frá því mælingar hófust. Almennt voru brottfarir í ár um 80 prósent af því sem þær voru í októbermánuði 2018 þegar mest var til þessa, svo flugumferð fer að ná methæðum á ný.
Bandaríkjamenn eru fjölmennastir útlendinga sem sækja Ísland heim, um þriðjungur í október.
„Þetta er sígandi lukka og ekkert annað,“ segir Jóhannes Þór. „Eftirspurnin hefur verið mun meiri í ár en við bjuggumst við,“ bætir hann við. Það muni þó taka lengri tíma en sem nemur einu sumri að jafna sig eftir samkomutakmarkanir.
„Vandinn er og verður margþættur og varðar bæði mönnunarvanda og skuldavanda, en fjárhagsstaða fyrirtækja lagast ekki strax. Við reiknum með að vera komin á sama stað árið 2024 og við vorum fyrir pestina,“ segir hann.