Mahad Mahamud sem var sviptur ríkisborgararétti í Noregi eftir sautján ára búsetu í landinu hefur verið hafnað um hæli á Íslandi. Umsókn hans verður ekki tekin til efnismeðferðar samkvæmt úrskurði Kærunefndar útlendingamála og hann verður sendur aftur til Noregs samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni, ekki síðar en 8. maí.

„Nú hef ég misst alla von og baráttuþrek,“ segir Mahad. „Mig langar ekki til að lifa lengur, líf mitt er einskis virði,“ segir hann og kvíðir því að vera sendur til Noregs.

Fréttablaðið fjallaði um aðstæður Mahads í febrúar á þessu ári. Norsk yfirvöld segja hann hafa komið frá Djíbútí sem barn. Ekki Sómalíu. Það er grundvöllur þess að hann er sviptur norskum ríkisborgararétti. Hann er nú sendur aftur til Noregs þrátt fyrir endurkomubann og að „mega ekki“ koma þangað aftur í tvö ár.

Í Noregi bjó Mahad utan kerfis eftir að hafa misst öll réttindi sín í Noregi. „Mín bíður líf á götunni,“ segir hann. Honum mun þó bjóðast dvöl í móttökustöð í dreifbýli Noregs. „Það er bara fangelsi,“ segir Mahad um þær aðstæður sem bíða hans.

Norsk yfirvöld halda því fram að Mahad hafi komið frá Djíbútí sem barn. Ekki Sómalíu. Það er grundvöllur þess að hann er sviptur norskum ríkisborgararétti. Þegar hann var sviptur ríkisborgararéttinum var honum tjáð að færi hann úr landi, mætti hann ekki koma aftur í tvö ár.

„Það er því kaldhæðnislegt að Íslandi sendi mig aftur þrátt fyrir að ég „megi ekki“ koma þangað,“ segir Mahad.

Í samantekt Kærunefndar útlendingamála kemur fram að norsk stjórnvöld hafi fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Niðurstaða kærunefndar sé því að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda hann aftur til Noregs.

Mahad flúði til Noregs fjórtán ára gamall. Hann varð vel liðinn samfélagsþegn. Hann starfaði á Ullevåll-sjúkrahúsinu í sérfróðu teymi lífeindafræðinga að greiningu hættulegra veira á borð við ebólu.

Einn daginn barst hins vegar nafnlaus ábending til útlendingayfirvalda í Noregi. Í ábendingunni var því haldið fram að Mahad hefði þrátt fyrir að vera barn að aldri komið sem njósnari til Noregs. Hann væri ekki frá Sómalíu heldur nágrannalandinu Djibútí.

Útlendingastofnun á Íslandi hafnaði því að taka umsókn Mahads til umfjöllunar og vill senda hann aftur til Noregs samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni. Ákvörðunin var kærð og nú liggur fyrir niðurstaða kærunefndar útlendingamála. Ákvörðun Útlendingastofnunar stendur og Mahad verður sendur úr landi til Noregs.

„Ég óttaðist alltaf að yfirvöld hér myndu ekki þora að fara gegn ákvörðun norskra útlendingayfirvalda sem ákváðu að treysta ábendingu frá ókunnugri manneskju um að ég hefði komið til Noregs sem njósnari á barnsaldri og væri ekki sómalískur. Það reyndist síðar ómögulegt að senda mig til Djíbútí því þarlend yfirvöld neita því staðfastlega að ég sé þaðan. Á meðan þá hafa sómalísk yfirvöld ítrekað staðfest að ég er þaðan.

Þetta er vandræðalegt mál fyrir norsk yfirvöld. En ég vonaði samt að Íslendingar myndu skerast í leikinn. Því ég hef verið beittur miklu óréttlæti. Ég var norskur Sómali. Nú er ég ekkert. Ríkisfangslaus og líf mitt er algjörlega einskis virði,“ segir Mahad.

„Mér leið í nokkrar vikur eins og manneskju hér á landi. Ég gat verið á meðal fólks. En ég vil vinna, ég menntaði mig til þess að hjálpa fólki og gera samfélaginu gagn. Ég hélt að Íslendingar vildu nýta sér sérfræðiþekkinguna sem ég bý yfir. En nú er ég á leiðinni til Óslóar. Verð á götunni, án vinnu, án þaks yfir höfuðið. Ég tilheyri engu, mér líður satt best að segja svo illa í hjartanu að ég finn til líkamlegs sársauka. Þetta er skerandi sársauki.“ [email protected]

Úrskurður Kærunefndar útlendingamála

Sagður sómalskur í úrskurðinum

Í úrskurði Kærunefndar vekur athygli að Mahad er sagður ríkisborgari Sómalíu. Þvert á það sem norsk yfirvöld halda fram. Hjörtur Bragi Sverrisson hjá Kærunefnd útlendingamála segir það ekki hafa þýðingu. „Að því er varðar beitingu Dyflinnarreglugerðarinnar hefur það ekki þýðingu frá hvaða ríki viðkomandi einstaklingur er eða hvort hann sé ríkisfangslaus, sbr. c-lið 2. gr. reglugerðarinnar. Þannig er ekki um að ræða að einstaklingur sé „sendur sem“ ríkisborgari tiltekins ríkis eða sem ríkisfangslaus einstaklingur,“ segir Hjörtur sem segir að aftur á móti geti ríkisfang umsækjanda eða ríkisfangsleysi komið til skoðunar hjá íslenskum yfirvöldum þegar lagt er mat á hvort sérstakar ástæður eða sérstök tengsl við landið eigi að leiða til þess að umsókn sé tekin til efnismeðferðar hér á landi. „Þegar einstaklingur ber fyrir sig ríkisfangsleysi skoða íslensk stjórnvöld t.d. hvaða úrræði eru í boði fyrir þá sem leita verndar vegna ríkisfangsleysis í viðtökuríkinu. Ef leikur vafi á því hvaða ríkisfang viðkomandi hefur, eða hvort hann er ríkisfangslaus, eru einstaklingsbundnar aðstæður skoðaðar með hliðsjón af þeim vafa,“ segir Hjörtur Bragi.

Skrípaleikur með líf

Þá kemur fram í úrskurðarorðum að athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjanda um alþjóðlega vernd í Noregi hafi ekki leitt í ljós gögn sem gefi tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda þangað brjóti í bága við samninga um mannréttindi. Þá bendi öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Noregi, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Enn fremur sé haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Noregs á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. 

„Þetta er bara skrípaleikur með raunverulegt líf fólks,“ segir Mahad. „Ég sem réttindalaus maður sem hefur að auki misst allt, get ekki sótt rétt minn. Ég hef ekki efni á því. Ég reyndi að sækja réttlætið með því að biðja yfirvöld hér á landi um hjálp,“ segir Mahad. „Ég get ekki treyst norskum yfirvöldum eftir meðferð máls míns þar í landi,“ bætir hann við .