Í lok sumars kom út ein umfangsmesta fjölþjóðlega rannsókn seinni tíma á áhrifum áfengis á heilsu fólks. Rannsóknin tók til 195 landa og áhrifa áfengis á heilsu tæplega 30 milljóna einstaklinga. Niðurstöður kollvörpuðu þeirri mýtu að einn eða tveir drykkir á dag teldust heilsubætandi. Þar kom einnig fram skýr fylgni milli drykkju og ótímabærs dauða, krabbameins og hjarta- og æðasjúkdóma. Það að neyta ekki áfengis dragi almennt úr líkum á því að verða fyrir heilsutapi. Áfengi er stór hluti af menningu Íslendinga en þó ekki allra. Fréttablaðið ræddi við nokkra einstaklinga sem annaðhvort hafa aldrei smakkað vín eða ákveðið á einhverjum tíma að hætta að drekka.

Brynja Nordquist, fyrrverandi flugfreyja:

Fersk á morgnana og almennt hamingjusamari

Hver var ástæðan fyrir því að þú kaust að hætta að drekka?

„Ástæðan var sú að ég var einfaldlega búin að fá nóg. Mér fannst líf mitt vera farið að snúast um næsta tilefni til að fá mér áfengi. Mér fannst ég finna oftar fyrir kvíða og vanlíðan sem ég tengdi beint við áfengisneyslu. Þetta var lengi búið að gerjast með mér en ég var svo hrædd um að einangrast frá félagslífi ef ég hætti að drekka. Það var mikill misskilningur og vinir mínir hafa ekkert síður gaman af að vera með mér núna en áður.“

Hvernig finnst þér að vera í kringum fólk sem drekkur?

„Mér finnst þetta oftast lítið mál en vil helst ekki dvelja of lengi. Þetta fer þó alltaf eftir félagsskapnum. Ég veit að ef mér er farið að finnast þetta óþægilegt þá get ég bara farið heim.“

Er nokkurt mál að skemmta sér án áfengis?

„Nei, í sjálfu sér ekki. Ég fer reyndar aldrei á skemmtistaði en við förum oft út að borða og komum yfirleitt snemma heim. Þetta er allt auðveldara ef maður hefur góðan stuðning og skilning frá þeim sem standa manni næst.“

Hverjir eru kostir og gallar þess að vera edrú?

„Það er enginn galli við að vera edrú, bara kostir. Minni vanlíðan og kvíði, fersk á morgnana og almennt svo miklu hamingjusamari. Nú er fullt svigrúm fyrir barnabarnið mitt sem býr á Íslandi og ég er alltaf til staðar fyrir hann.“

Garpur I. Elísabetarson kvikmyndagerðarmaður:

Stóðu við tvo þriðju hluta samningsins

Hvenær tókst þú ákvörðun um að byrja aldrei að drekka áfengi?

„Ég og tvíburabróðir minn sömdum þegar við vorum 11 ára; aldrei drekka, aldrei reykja og aldrei vera með stelpum. Það var mikil alvara í þessum samningi hjá okkur og þegar hann eignaðist sína fyrstu kærustu 14 ára gamall þá þorði hann ekki að segja mér frá því.“

Hvernig finnst þér að vera í kringum fólk sem er að fá sér?

„Það er bara jafn misjafnt og það er margt. Sumir eru leiðinlegir edrú og sumir eru leiðinlegir í glasi.“

Hvernig finnst þér að skemmta þér með fólki sem er í glasi eða drukkið?

„Ég á mjög auðvelt með að skemmta mér, hvar og hvenær sem er. Ef félagsskapurinn er góður, þá erum við í toppmálum.“

Eru einhverjir sérstakir kostir sem þú sérð í því að drekka ekki, svona ef þú berð þig saman við þá sem drekka í kringum þig?

„Það er auðvitað hægt að tala um að ég sleppi við þynnku og aðra fylgikvilla sem fylgja áfengisdrykkju. Svo er auðvelt að nefna peninga sem ég eyði ekki í áfengi. En það fer þá bara í aðra vitleysu.“

Hákon Kjalar Hildarson, rekur ferðaþjónustu í miðri Þjórsá:

Frelsið, tíminn og orkan er það sem stendur upp úr

Hvers vegna ákvaðst þú að hætta að drekka?

„Ég hafði ekki nógu góða stjórn á drykkjunni sem hafði mikil áhrif á líf mitt. Ég var einfaldlega kominn með ógeð á því og tók þá ákvörðun fyrir fimm árum að hætta alfarið að drekka. Þannig breytti ég lífsstíl mínum til muna og hef sko ekki séð eftir því.“

Hvernig finnst þér að vera í kringum fólk sem drekkur?

„Mér finnst það ekkert mál. Flestir mínir vinir drekka áfengi og ég fer mikið á vínveitingahús til að hitta vini mína. En ég endist hins vegar styttra. Það er munur á að vera með fólki sem er að fá sér í glas og fólki sem er drukkið. Maður hefur minni þolinmæði fyrir drukknu fólki heldur en maður hafði þegar maður var sjálfur að drekka. Í Traustholtshólma, þar sem ég fæ fólk í gistingu, afgreiði ég til dæmis áfengi en mér finnst það ekkert mál.“

Er eitthvert mál að fara út að skemmta sér án áfengis?

„Ég fer nú ekki mikið á skemmtistaði í bænum. En skemmtun fyrir mér er að fara flott út að borða og í leikhús og annað. Áfengisleysið, þar er ekkert mál, og maður nýtur sín betur. Það sem mér finnst hins vegar vanta er meira úrval af 0% bjór inn á staði bæjarins. Slíkur bjór er oft vandfundinn í höfuðborginni á meðan hann er víða erlendis.“

Hvaða kostir og gallar eru við það að drekka ekki áfengi í dag?

„Stærsti kosturinn er tími. Maður fær svo mikið af tíma og orku sem maður annars eyðir í að vera undir áhrifum áfengis eða með timburmenn. Frelsið er líka kostur og það að geta keyrt. Það er kannski ákveðinn galli að félagslíf fólks á Íslandi er svolítið samtvinnað áfengi.“

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi:

Fann fyrir miklum hópþrýstingi áður fyrr

Hefur þú aldrei fengið löngun til að prófa að smakka áfengi?

„Margir vina minna byrjuðu að drekka sumarið eftir 7. bekk í grunnskóla, sem er átakanlega ungt. Ég varð því mjög ung fyrir miklum hópþrýstingi hvað áfengisneyslu varðar. Ég var ofboðslega ákveðinn en samviskusamur unglingur, ég stóð alltaf með sjálfri mér. Mig langaði aldrei að prófa svo ég lét aldrei undan þrýstingnum.

Enn þann dag í dag hef ég ekki fundið löngun til að drekka áfengi og hef því enn ekki smakkað. Þetta var allt alveg óttalegt vandamál í margra augum hér áður fyrr. Mjög reglulega vakti það mikla athygli að ég drykki ekki áfengi. Margir lögðu sitt á vogarskálarnar til að fá því breytt. Viðhorfin hafa þó breyst umtalsvert síðustu ár, þeim hefur fjölgað sem kjósa að drekka ekki áfengi og færri telja þessa ákvörðun mína sæta einhverri furðu.“

Hvernig finnst þér að vera í kringum fólk sem er að fá sér?
„Mér finnst það almennt í góðu lagi. Það hefur aldrei truflað mig. Fólk er þó auðvitað misskemmtilegt í glasi, eins og gengur.“

Áttu auðvelt með að skemmta þér með fólki sem drekkur vín, þótt þú drekkir ekki sjálf?
„Ég vandist því mjög ung og hef alltaf átt auðvelt með það. Ég upplifi frekar að þeim sem drekka áfengi þyki óþægilegt að skemmta sér innan um allsgáða. Eins og þau verði fyrir fordæmingu. Sem er auðvitað algjör misskilningur, að minnsta kosti hvað mig varðar. Áfengi getur verið skemmtilegt sé vel með það farið – en ég kýs að sleppa því og sú ákvörðun hefur reynst alveg hreint ágæt.“

Eru einhverjir sérstakir kostir sem þú sérð við það að drekka ekki, svona ef þú berð þig saman við þá sem drekka í kringum þig?
„Það eru auðvitað fjölmargir kostir. Kannski helst þeir að geta skemmt mér án áfengis og vaknað svo daginn eftir án timburmanna og teljandi trafala. Eins hef ég sparað heilmikið fé í gegnum árin sem annars hefði farið í áfengi og leigubíla. Ég nota þá staðreynd reglulega sem réttlætingu á öðrum skemmtilegum innkaupum.“

Jónas Óli Jónasson Jay-O og frumkvöðull:

Ekkert mál að skemmta sér án áfengis

Var einhver ástæða fyrir því að þú ákvaðst að smakka aldrei vín?

„Í raun ekki, ég hef yfirleitt synt á móti straumnum og þegar allir vinir mínir voru að byrja að prófa að drekka fannst mér það vera of snemmt miðað við aldur, sem var um 15-16 ára. Ég hugsaði með mér að gera það ef mig langaði til þess, fyrir mig, þegar ég yrði aðeins eldri og ekki af því allir voru að gera það. Svo byrjaði ég í Verzló, fór á böll án þess að drekka og það var fáránlega gaman. Þetta „aðeins eldri“ kom því aldrei og því hef ég aldrei byrjað.“

Hefur þig aldrei langað til að prófa?

„Ekki á þeim forsendum sem flestir byrja, sem er oft „það eru allir að gera það“ eða að sleppa við sjálft sig. Ég væri mögulega til í að læra að njóta áfengis með mat en í raun er það ekki á planinu. Í flestum tilvikum held ég að þeir sem byrji að drekka viti ekki af hverju þeir byrjuðu heldur meira „af því bara“.“

Hvernig finnst þér að vera í kringum fólk sem er að fá sér?

„Ég er oft spurður að þessu og finnst fyndið hvað fólki sem drekkur finnst skrýtið að ég nenni því sem ég geri, hvort það sé ekki mikið áreiti og annað. Í raun er ekkert mál að vera innan um fólk undir áhrifum og ég hef ekkert á móti því að fólk fái sér svo lengi sem það er meðvitað um það sem er í gangi í kringum sig. Það kemur fyrir að ég sé fólk sem hefur farið yfir strikið og það ýtir bara undir það að sleppa þessu.“

Áttu auðvelt með að skemmta þér með fólki sem er í glasi eða drukkið?

„Já, 100%. Fólk fattar ekki hvað það er auðvelt. Það eru allir fullir og þú bara djókar með. Ef einhverjum finnst það erfitt þá er um að gera að fá sér sódavatn með lime og þá minnka spurningar um það hvers vegna maður sé ekki að drekka, eins og það sé bara normið að fá sér.“

Hverjir heldur þú að séu kostir þess að drekka ekki?

„Hellingur. Ég er alltaf alveg til staðar, man allt, alltaf á bíl og eyði minna á því að fá mér bara vatn og Coca-Cola.“

Natalie Gunnarsdóttir plötusnúður:

Hugurinn skýr og enginn bömmer

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að hætta að drekka?

„Það voru ýmsir hlutir sem spiluðu inn í þá ákvörðun að ég ákvað að hætta að drekka, en það sem gerði útslagið voru erfið veikindi og ég vissi að ég þyrfti að vera með skýran haus til að geta tekist á við þau.“

Hvernig finnst þér að vera innan um fólk sem drekkur áfengi þó þú smakkir ekki sjálf?

„Ég kippi mér ekkert upp við það að vera í kringum ölvað fólk. Vinnan mín felst í því þar sem ég spila tónlist um helgar og ég myndi segja að ég væri orðin frekar vön.“

Finnst þér erfitt að fara út að skemmta þér án áfengis?

„Það er nákvæmlega ekkert mál. Ég elska að fara út og vita að ég hef stjórnina á kvöldinu, ekki öfugt.“

Hverjir eru kostirnir og gallarnir við að vera edrú?

„Ég hef ekki ennþá rekist á gallana en kostirnir eru ansi margir. Það myndast rosa mikið rými fyrir aðra hluti þegar maður tekur út áfengi. Hugurinn skýrist og svo ég tali nú ekki um andlegu hliðina. Ekkert djammviskubit og engir bömmerar alla daga vikunnar.“

Þóra Kristín Steinarsdóttir, skrifstofunni hjá Vogabæ og Daði Agnarsson. rekstrarstjóri Braggans bistro:

Hættu sulli saman fyrir tólf árum

Var einhver ástæða fyrir því að þið ákváðuð að hætta að drekka saman?
Þóra: Ekki beint. En við hjónin vorum á tímamótum í okkar sambandi og að auki langaði okkur til þess að stækka fjölskylduna og hlúa að okkur sjálfum.

Daði: Sem barn fann maður hvað drykkja annarra gat haft slæm áhrif á mann, öryggisleysi og óvissa og að sjá ættingja og vini verða
„skrýtna“. Það var ekki það sem mig langaði að mín börn upplifðu.

Hættuð þið á sama tíma?

Þóra: Já, í nóvember 2006.

Hvernig finnst ykkur að vera í kringum fólk sem drekkur vín eftir að þið hættuð?

Þóra: Mér finnst það ekkert mál og hef alltaf getað skemmt mér án áfengis. Eftir því sem árin líða verð ég æ þakklátari fyrir þessa ákvörðun. Þó hef ég gengið í gegnum tímabil þar sem ég hef haldið að ég sé að missa af einhverju. En alltaf þegar ég kem heim eftir að ég fer út á meðal fólks sem er að drekka þá fyllist ég þakklæti. Fólk er samt misjafnt með víni, það sést varla á sumum en svo er náttúrlega fullt af fólki sem ætti alls ekki að drekka vín.

Daði: Maður getur skemmt sér í kringum fólk í glasi og séð spaugilegu hliðina á því þegar það er komið í glas. Fólk fer að segja og
gera hluti sem það mundi aldrei gera edrú. Er eitthvert mál að fara út að skemmta sér án áfengis?

Er eitthvert mál að fara út að skemmta sér án áfengis?

Þóra: Nei, og það er ótrúlegt hvað maður kemst í mikið stuð með því að vera innan um skemmtilegt fólk og þar sem er góð músík. Ég hef alltaf getað farið á ball og dansað og haftgaman án þess að drekka.

Daði: Ég er sammála. Áherslurnar breytast með aldrinum og að fara á „djammið“ þarf ekki að þýða að fá sér í glas. En maður endar þá frekar á því að skutla öllum heim. 

Hverjir finnst ykkur vera kostir og gallar þess að vera edrú?

Þóra: Kostirnir eru miklu fleiri en gallarnir. Ég geri mig fína og er enn fín þegar ég kem heim, ég get alltaf keyrt, mér líður vel daginn
eftir, börnin mín þurfa ekki að fá kvíða eða líða illa í kringum það þegar ég er að fara að hafa gaman, ég man allt sem ég gerði og sagði. Gallarnir eru til dæmis að þurfa að skýra út af hverju maður sé ekki að drekka. Maður hefur ekki vínið til að hressa sig við þegar það liggur ekki vel á manni og mann langar að mingla. Maður einangrast svolítið ef má segja svo, maður er kannski ekki að falla inn í alla hópa eins og maður gerði þegar maður drakk. En við eigum valið sjálf með hverjum við viljum skemmta okkur og hverjum okkur líður vel með. Þannig að maður sækir í það fólk sem maður getur verið maður sjálfur með. Ég mæli 100 prósent með þessum lífsstíl! 

Daði: Maður breytist ekki og man allt sem gerist. Hvað börnin varðar þá upplifa þau ekki einhvers konar breytingu sem fylgir oft neyslu áfengis. Í dag er úrval óáfengra drykkja mikið og ekkert mál að fara út að borða og fá sér pilsner eða óáfengan kokteil. Þeir drykkir eru nú bara betri! En áfengisneysla tengist oft einhvers konar viðburðum, til dæmis að horfa á boltann með vinum og fara til útlanda en það er bara spurning um að sleppa því að drekka og njóta án áfengis. Maður fékk sér til dæmis alveg nokkra kalda fyrir flug til að deyfa sig gagnvart flughræðslu en í dag fær maður sér bara eina róandi í staðinn fyrir bjór.