Vörukarfan í Reykjavík er 67% hærri en í Helskinki, að því er fram kemur í verðlagskönnun ASÍ. Ísland sker sig úr þegar höfuðborgir Norðurlandanna eru skoðaðar. Matvöruverð kemst hvergi nálægt því sem það er í Reykjavík.

Könnunin var gerð 5. til 9. desember í leiðandi lágvöruverðsverslunum í höfuðborgum Norðurlandanna. Kannað var verð á algengum neysluvörum í sambærilegum verslunum, vörur á borð við mjólk, osta, kjötvörur, grænmeti, ávexti og brauð.

„Það land sem er næst Íslandi í verðlagi er Noregur en vörukarfan í Oslo er samt sem áður 40% ódýrari en í Reykjavík,“ segir á vef ASÍ.

„Vörukarfan sem verðlagseftirlitið bar saman var dýrust í Reykjavík þar sem hún kostaði 7.878 kr. og næst dýrust í Noregi, þar sem hún kostaði 5.631. kr. Sambærileg vörukarfa í Kaupmannahöfn kostar 5.173 kr og 5.011 krónur í Stokkhólmi. Ódýrasta matvörukarfan var í Helsinki þar sem hún kostaði 4.729 kr. Verð á þeim vörum kannað var reyndist oftast hæst í Reykjavík eða í 12 tilvikum af 18 en í 8 tilvikum af 18 var vöruverðið lægst í Helsinki.“

Athugið að hægt er að deila grafinu hér að neðan sérstaklega.