„Fyrir um mánuði síðan sáust bara ekki erlendir ferðamenn hér á götunum en nú eru þeir aðeins farnir að sjást. Mér er sagt af helstu ferðaþjónustuaðilum Færeyja að þótt ferðamennirnir séu ekki margir sé þetta þó vísir að því að þetta geti eitthvað glæðst síðsumars,“ segir Benedikt Jónsson, aðalræðismaður Íslands í Færeyjum.
Svipaðar reglur gilda um komu ferðamanna til Færeyja og hér á landi. Allir tólf ára og eldri þurfa að fara í skimun við komuna til Færeyja en ekkert er greitt fyrir það út júlímánuð.
Benedikt segir að Færeyingar séu varkárir sem megi væntanlega rekja til þess að vel hefur tekist til í aðgerðum við veirufaraldrinum. Alls hafa komið upp 188 smit í landinu en enginn hefur látist. Eitt smit kom upp í byrjun júlí en þá hafði ekki komið upp smit frá því í apríl.
„Færeyingar vilja fyrir alla muni varðveita þennan árangur,“ segir Benedikt. Um miðjan júní var opnað fyrir komur ferðamanna frá Danmörku, Grænlandi, Íslandi, Noregi og Þýskalandi en síðan bættust við ríki ESB, Schengen og Bretland.
„Forsvarsfólk í ferðaþjónustunni hérna talar um það í sambandi við opnun landsins að íslenskir ferðamenn skipti miklu máli. Þótt það séu fáir ferðamenn hér ennþá er líklega helmingur þeirra Íslendingar,“ segir Benedikt.
Í byrjun júlí opnaði nýtt hótel í Þórshöfn og er Benedikt sagt að þar séu Íslendingar á bak við helming gistinótta. „Þeir ferðamenn sem eru hér á stjái eru mikið á þessu svæði þar sem sendiskrifstofan er. Maður rekst á Íslendinga hérna og við höfum fengið fyrirspurnir um hitt og þetta. Hvort það séu takmarkanir sem auðvitað eru og kannski ekkert ósvipaðar þeim á Íslandi.“
Benedikt tók við stöðu aðalræðismanns í september á síðasta ári. Hann segir að móttökurnar í Færeyjum hafi verið einstaklega góðar. Einhver bið verður þó á því að hann fái að upplifa alvöru Ólafsvöku sem haldin er árlega í lok júlí.
„Lífið gengur svona að mestu leyti sinn vanagang hér. Þó eru Færeyingar meðvitaðir um stöðuna og hafa til dæmis aflýst öllum hópsamkomum á Ólafsvöku. Það er ekki búið að blása hana af en hún verður með gerbreyttu sniði.“
Í byrjun faraldursins hafi fólk strax farið að hugsa til Ólafsvöku og átt erfitt með þá tilhugsun að hún færi ekki fram. „Þeir ætla að hafa sérstaka dagskrá í sjónvarpi og stilla þar upp þessum viðburðum sem hafa verið í bænum. Það verður auðvitað ekki það sama.“