Fimmta atrennan að verndarsáttmála úthafsins er hafin í New York. Íslendingar hafa beitt óvanalega miklum áhrifamætti sínum til að reyna að undanskilja fiskveiðar.

Íslendingar, Norðmenn, Rússar og Japanir eru meðal þeirra þjóða sem nýr alþjóðasáttmáli um hafið hefur strandað á í viðræðum innan Sameinuðu þjóðanna. Í gær hófust fundarhöld í höfuðstöðvunum í New York til að reyna að koma á heildstæðu lagaverki um málefni úthafanna.

Ólíkt flestum öðrum alþjóðlegum samningaviðræðum hefur það sýnt sig að Ísland hefur raunverulegt vægi þegar kemur að hafinu

„Ísland hefur í alvörunni lagt það til í textaformi að fiskveiðar verði undanskildar þessum sáttmála,“ segir Pétur Halldórsson, fyrrverandi formaður Ungra umhverfissinna, sem sat fundi um málefnið árið 2019.

Sendinefndir Íslands hafa verið tregar til að samþykkja lagasetningu um veiðar, hvort sem það er á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eða annars staðar. En fá stjórntæki eru til að stýra nýtingu utan lögsögu ríkja. Pétur segir fiskveiðar eitt af því helsta sem hafi áhrif á hafið og sé ein helsta ástæða fyrir því að verið sé að gera þennan sáttmála.

„Ólíkt flestum öðrum alþjóðlegum samningaviðræðum hefur það sýnt sig að Ísland hefur raunverulegt vægi þegar kemur að hafinu,“ segir Pétur og vísar til þess að Íslendingar hafi verið harðir í horn á þessum vettvangi, til dæmis við gerð hafréttarsamningsins sem lögfestur var árið 1994.

„Það er mjög slæmt að í þau fáu skipti sem við getum haft alvöru áhrif á alþjóðavettvangi að við skulum nota tækifærið til að afvegaleiða mál.“

Pétur Halldórsson fyrrverandi formaður Ungra umhverfissinna

Höfum tekið hafinu sem sjálfsögðum hlut

Úthöfin taka við þar sem efnahagslögsögu strandríkja sleppir við 200 mílur. Telja þau 43 prósent af yfirborði jarðarinnar.

Meðal þeirra alvarlegu ógna sem steðja að hafinu eru loftslagsbreytingar, mengun og súrnun. Í fjögur skipti hefur Sameinuðu þjóðunum mistekist að koma á sáttmála um úthöfin. Nú er reynt í fimmta skiptið og munu fundahöldin standa yfir til 26. ágúst.

„Því miður höfum við tekið hafinu sem sjálfsögðum hlut. Í dag stöndum við frammi fyrir neyðartilfelli í hafinu. Við verðum að snúa þróuninni við,“ sagði Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna á fundi í júní síðastliðnum.

Fyrstu þreifingar til að koma á sáttmála voru gerðar árið 2004. Upprunalega var gert ráð fyrir að samningaloturnar yrðu fjórar. Árið 2020 komust þjóðir heimsins nálægt samningi en viðræðum var frestað fram yfir faraldur.

Því miður höfum við tekið hafinu sem sjálfsögðum hlut. Í dag stöndum við frammi fyrir neyðartilfelli í hafinu.

Meðal þess sem stefnt er að er stækkun verndarsvæða upp í 30 prósent árið 2030. Í dag ná þau yfir 7 prósent hafsins, aðallega í Kyrrahafi og Indlandshafi, og hlutfallið í úthöfunum er aðeins 1,2 prósent.

En sáttmálinn á einnig að ná til fleiri þátta. Svo sem að koma á sérstöku umhverfismati fyrir starfsemi á úthöfunum, löggjöf um námagröft og vinnslu, löggjöf um mengunarvarnir og um varnir gegn ofveiði. Þá stendur vilji til þess að gefa 44 landluktum ríkjum aðgang að lífrænum auðlindum hafsins.

Meðal þeirra sem þrýsta fast á að sáttmálinn verði kláraður eru ríki Evrópusambandsins. Bandaríkjastjórn er jákvæð gagnvart úthafssáttmála en óvíst hvort að takist að fullgilda hann í þinginu.

Pétur segist óviss um hvort samningagerðin takist nú. Óvíst sé með aðkomu Rússa í ljósi stríðsins. „Þetta verður að nást, hvort sem það tekur tvær vikur eða tvö ár. Það er ekkert annað í boði því hafið er hryggjarstykkið í lífkeðju jarðarinnar,“ segir hann.

Fréttablaðinu hefur ekki borist svör frá matvælaráðuneytinu um málið.