Þeim sem óttast að smitast af CO­VID-19 hér­lendis hefur fækkað nokkuð sam­kvæmt nýjum Þjóðar­púlsi Gallup. Sömu­leiðis fækkar þeim sem hafa á­hyggjur af heilsu­fars­legum á­hrifum far­aldursins. Traust á við­brögðum al­manna­varna og heil­brigðis­yfir­valda við honum er á­fram mikið.

Þjóðar­púlsinn var fram­kvæmdur dagana 6. til 12. janúar og tóku 875 manns 18 ára og eldri þátt.

Þar kemur fram að þeim sem hafa mjög miklar á­hyggjur af því að smitast af CO­VID fækkar um tæp fimm prósentu­stig frá síðasta Þjóðar­púlsi, sem var fram­kvæmdur 16. desember til 4. janúar. Þeim sem hafa miklar á­hyggjur af heilsu­fars­legum af­leiðingum far­aldursins fækkar svipað mikið.

Svar­endur sem hafa mjög miklar á­hyggjur af efna­hags­legum á­hrifum CO­VID-19 hér á landi eru nánast jafn margir og í síðasta Þjóðar­púlsi og hefur fjöldinn haldist nokkuð stöðugur frá því að Gallup kannaði málið fyrst í mars.

Byrjað var að bólusetja gegn COVID-19 hérlendis með bóluefni Pfizer í lok árs og bóluefni Moderna í gær.
Fréttablaðið/Anton

Alls segjast 83,8 prósent svar­enda hafa breytt venjum sínum mikið eða mjög mikið til að forðast smit. Traust á að­gerðum al­manna­varna og heil­brigðis­yfir­valda til að takast á við far­aldurinn er mikið en 94,3 prósent svar­enda segjast treysta þeim frekar vel, mjög vel eða full­kom­lega.

Traust til efna­hags­legra að­gerða stjórn­valda er ekki jafn mikið en alls segjast 64,9 prósent að­spurðra treysta þeim frekar vel, mjög vel eða full­kom­lega. Litlar breytingar hafa orðið á þeim fjölda síðan í mars.

Þá er stór hluti svar­enda á því að hæfi­lega mikið sé gert úr heilsu­fars­legri hættu sem stafar af CO­VID-19 hér­lendis eða 74,6 prósent og eykst fjöldi þeirra um fjögur prósentu­stig frá síðustu könnun. Mikill meiri­hluti eða 80,5 prósent eru þeirra skoðunar að al­manna­varnir og heil­brigðis­yfir­völd séu að gera hæfi­lega mikið til að bregðast við far­aldrinum og fjölgar um tvö prósentu­stig frá síðasta Þjóðar­púlsi.