Ísland losaði mest allra Evrópuríkja af gróðurhúsalofttegundum miðað við höfðatölu árið 2019. Þetta kemur fram í samantekt á losun Evrópuríkja sem birt er á vefsíðu Eurostat, tölfræðideildar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.


Samkvæmt Eurostat losaði Ísland 40,9 tonn af gróðurhúsalofttegundum á hvern íbúa út í andrúmsloftið árið 2019. Freistandi kann að vera að skýra þetta háa losunarhlutfall með því móti að Ísland sé fámennt ríki.

Losunarhlutföll annarra fámennra ríkja á listanum renna hins vegar ekki stoðum undir þá skýringu. Lúxemborg, sem telur um 633.000 manns, var í öðru sæti á listanum en þar var losunin á hvern íbúa 19,7 tonn yfir árið, aðeins tæpur helmingur þess sem Íslendingar losuðu. Maltverjar, sem eru um 514.600 talsins, losuðu aðeins 5,3 tonn á mann.

Meðallosun Evrópusambandsins á árinu var 7,8 tonn á hvern íbúa. Losun Íslendinga er því um fimmfalt meðaltal Evrópubúa innan sambandsins. Svíar voru með lægsta losunarhlutfall allra landa á listanum, en þeir losuðu aðeins 1,8 tonn gróðurhúsalofttegunda árið 2019. n