Írakar hafa bannað þingmönnum að skipta um lið ef grunur leikur á að flutningurinn sé til þess eins að komast nær kjötkötlunum.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem stýrir starfi fyrir Sameinuðu þjóðirnar í Írak þar sem kosningamál eru hluti verkefna, segir að Íslendingar geti dregið lærdóm af Írökum í þessum efnum.

„Þeir settu í kosningalög að þingkjörnir þingmenn geta ekki skipt um flokk eða fylkingu, það er að segja kosningabandalag. Ef þeir hafa verið kjörnir á þing sem hluti af flokki eða bandalagi þá geta þeir ekki skipt um lið,“ segir Ingibjörg Sólrún.

Markmið löggjafarinnar er að koma í veg fyrir hættu á að þingmenn geti sætt færis með flutningi ef þeir sjá að flokkur þeirra eða kosningabandalag sé ekki líklegt til að komast í ríkisstjórn.

Ingibjörg Sólrún segir að líkja megi völdunum við kjötkatla. Ekki sé eðlilegt að einstaklingar hlaupi á milli, enda séu það flokkar þeirra sem fólk kýs, ekki sé um að ræða persónukjör.

„Það er mikil spilling í Írak og menn eru að reyna að takast á við hana, löggjöfin er liður í að stöðva það.“Spurð hvort Íslendingar geti dregið lærdóm af Írökum í þessum efnum, játar Ingibjörg Sólrún því.

Það geti þó gerst að menn vilji skipta um flokk þegar komið sé inn á kjörtímabil vegna tiltekinna mála. Annars sé oft hætta á hrossakaupum.

Hún minnir á að í tímans rás hafi verið gerðar ýmsar athugasemdir við íslensku kosningalöggjöfina. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu hafi sinnt eftirliti hér á landi og ýmsar ábendingar verið gerðar. Því miður hafi þeim ekki verið sinnt sem skyldi, eitt dæmi sé jöfnun atkvæða.

„Við megum ekki vera svo hrokafull að halda að allt sé í lagi hjá okkur og að við getum ekkert af öðrum þjóðum lært,“ segir Ingibjörg Sólrún, fyrrverandi forsætisráðherra.Þung orð hafa fallið um flokka­flakk vegna máls Birgis Þórarinssonar sem færði sig úr Miðflokknum yfir í Sjálfstæðisflokkinn tveimur vikum eftir kjördag.