Einar Þór Sigurðsson & Ingunn Lára Kristjánsdóttir
Þriðjudagur 31. mars 2020
13.42 GMT

Fréttablaðið ræddi við doktorsnema og lækni í Svíþjóð, þær Karólínu Einarsdóttur og Berglindi Harper Kristjánsdóttur, um viðbrögð Svía við kórónaveirufaraldrinum.

„Ég hef aldrei séð sprittflöskur í búðum og það er bara núna nýlega að fólk er farið að passa upp á einhverja fjarlægð í búðum,“ segir Karólína Einarsdóttir, doktorsnemi í líffræði við Háskólann í Uppsölum í Svíþjóð. Karólína furðar sig á nálgun sænskra yfirvalda vegna Covid-19 faraldursins.

Berglind Harper Kristjánsdóttir, sérnámslæknir í kvenna- og fæðingalækningum á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi, segir almenning í Svíþjóð bregðast mjög misalvarlega við.

Veitingastaðir opnir og fólk í ræktinni

Staðfest tilfelli Covid-19 í landinu eru rúmlega 4.400 og þá eru staðfest dauðsföll 180. Á sama tíma og flestar þjóðir hafa sett á samkomubann og jafnvel útgöngubann eru sænsk yfirvöld rólegri í tíðinni. Nálgun Svía hefur meðal annars verið sögð byggjast á hugmyndum um hjarðónæmi þó sóttvarnarlæknir landsins hafi neitað því.

„Stefnan er frekar sú að fólk eigi sjálft að taka ábyrgð á sjálfu sér og að það verði unnt að hemja útbreiðsluna á veirunni ef allir hagi sér skynsamlega.“

Í samtali við Fréttablaðið benda Karólína og Berglind á að nú sé í gildi 50 manna samkomubann í Svíþjóð, en aðeins er tæp vika síðan 500 manna samkomubann var í gildi. Þá er skólahald með svipuðum hætti og áður, fólk mætir í ræktina eins og ekkert hafi í skorist og þá eru veitingastaðir og næturklúbbar opnir eins og venjulega.

Karólína segir að eftir fyrsta dauðsfallið í landinu af völdum Covid-19 þann 10. mars síðastliðinn hafi sænsk yfirvöld sett á 500 manna samkomubann. Fyrir tæpri viku var því breytt í 50 manna samkomubann. „Ef maður rýnir í gögnin síðustu daga sér maður að það hefur dregið aðeins úr fjölgun þeirra sem til dæmis hafa verið að leggjast inn á gjörgæslu. Það eru vísbendingar um að þessar aðgerðir hafi haft eitthvað að segja,“ segir hún og bætir við að um svipað leyti hafi hjúkrunarheimilum verið lokað og þeir sem eru gamlir og veikir fyrir verið hvattir til að halda sig heima.

Læknar á sjúkrahúsinu fá þó misvísandi leiðbeiningar varðandi hlífðarbúnað. Berglind segir að læknar á hennar vinnustað finnist það einkennilegt.

Skortur á prófum

Karólína segir að Svíar séu ekki mikið fyrir boð og bönn heldur séu yfirvöld miklu frekar að beina „tilmælum“ til fólks. Hún segir að fyrir nokkru síðan hafi orðið skortur á prófum til að skima fyrir Covid-19 og því þurfti að forgangsraða hverjir færu í test. Aðeins heilbrigðisstarfsfólk og mjög sjúkir einstaklingar eru því teknir í próf. Og það bendir til að prófin séu orðin það fá að þeir geta ekki einu sinni skimað fyrir veirunni hjá heilbrigðisstarfsfólki. Karólína hafði fregnir af íslenskri konu sem ynni á heilbrigðisstofnun suður á Skáni og þar sé hætt er að prófa starfsfólk fyrir Covid-19 vegna skorts á prófum.

„Það er verið að tækla þetta á mjög undarlegan hátt.“

Karólína hefur verið búsett í Svíþjóð frá árinu 2011 og segist hún hafa fylgst með umræðum Íslendinga í Svíþjóð um stöðu mála í landinu. „Það er held ég alveg stór hluti Íslendinga sem er mjög uggandi yfir ástandinu á meðan annar hluti er kannski eins og hinn hefðbundni Svíi og vill treysta stjórnvöldum,“ segir hún.

Skólastarf með svipum hætti

Karólína á tvö börn á grunnskólaaldri og segir hún að skólastarf sé í raun með svipuðum hætti og áður. Hún segist þó senda börn sín í skólann með trega. „Reglurnar hér eru mun mildari en á Íslandi. Það sem hefur breyst er að börnin þvo sér oftar um hendurnar og þótt að yfirvöld hafi beint til skólanna að reyna að takmarka umgengni milli barnanna þá get ég ekki séð það hafa gerst í skólanum sem þau ganga í. Yfirvöld hafa beint til foreldra að ef börnin eru með einhver kvefeinkenni eigi ekki að senda þau í skólann, hins vegar hafa þau líka ítrekað að þótt að einhver á heimilinu sé með staðfest Covid 19, eigi börnin samt að fara í skólann á meðan þau sýna engin einkenni. Það kom tölvupóstur frá skólanum í síðustu viku til að ítreka þetta,“ segir hún.

Aðgerðir Svía til að sporna gegn útbreiðslu veirunnar hefur vakið talsverða umræðu í Svíþjóð og þá einkum meðal heilbrigðisstarfsfólks. Í frétt Aftonbladet í morgun kemur til dæmis fram að heilbrigðisstarfsfólk sé uggandi yfir því að slakað hafi verið á kröfum um hlífðarbúnað. Finnst starfsfólki eins og yfirvöld geri ekki nóg til að tryggja öryggi þess.

Til vinstri: Karólína Einarsdóttir doktorsnemi í líffræði við Uppsalaháskóla. Til hægri: Berglind Harper Kristjánsdóttir, sérnámslæknir í kvenna- og fæðingalækningum á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi.

Fólk taki ábyrgð á sjálfu sér

Berglind Harper Kristjánsdóttir, sérnámslæknir í kvenna- og fæðingalækningum á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi, segir ljóst að sænsk stjórnvöld hafi ekki tekið jafnföstum tökum á ástandinu og nágrannaþjóðir. Miklar áhyggjur eru meðal heilbrigðisstarfsfólks vegna misvísandi leiðbeininga um hlífðarbúnað eins og að framan greinir.

„Þetta hefur valdið mikilli reiði og áhyggjum hjá heilbrigðisstarfsfólki.“

„Stefnan er frekar sú að fólk eigi sjálft að taka ábyrgð á sjálfu sér og að það verði unnt að hemja útbreiðsluna á veirunni ef allir hagi sér skynsamlega. Þeim finnst það afar skrítin aðferð að setja útgöngubann og telja það ekki muna skila neinum árangri,“ segir Berglind í samtali við Fréttablaðið.

Að mati Berglindar er mikilvægasti munurinn sá að á Íslandi sé tekið sýni hjá öllum sem eru með einkenni og fólk sé sett í sóttkví sé það smitað eða ef það hafi umgengist sýktan einstakling án hlífðarbúnaðs. Smit séu svo rakin og þeir sem gætu verið smitaðir séu einnig settir í sóttkví. Þetta sé ekki gert í Svíþjóð og sé því veirunni leyft að leika lausum hala. Á Íslandi séu harðari reglur um samkomubann og fjarlægð milli fólks.

Almennar ráðleggingar

Hún segir fólki ráðlagt að einbeita sér að handþvotti og vera heima. Við kvefeinkenni sé fólki ráðlagt að vera heima og ekki fara út fyrr en þau hafa verið einkennalaus í tvo daga. Fóki með áhættuþætti og yfir 70 ára er ráðlagt að halda sig heima og heimsóknir á elliheimili og sjúkrahús hafa verið takmarkaðar.

Mennta- og háskólum í Svíþjóð hefur verið lokað og er haldin fjarkennsla en barna- og leikskólar eru enn opnir. Vinnuveitendur eru hvattir til að leyfa starfsfólki sínu að vinna heiman frá.

Í fyrradag voru reglur um samkomur hertar, nú mega bara vera 50 manns samankomnir á einum stað en fyrir helgi voru það 500.

Vita ekki hversu margir eru smitaðir

Berglind segir ekki hægt að vita hversu margir séu smitaðir í Svíþjóð.

„Sýni eru ekki tekin nema hjá þeim sem þurfa sjúkrahússinnlögn svo við vitum ekki hversu margir eru smitaðir, höfum ekki hugmynd um það. Í vissum tilvikum er leyft að taka sýni hjá heilbrigðisstarfsfólki með einkenni, að miklu leyti til að geta sagt til um hvort það geti komið til vinnu eða ekki,“ segir Berglind.

Hún segir ekki strangar reglur um sóttkví, að hluta til vegna þess að fáir, sem liggja heima með veirupest, viti hvort kórónuveiran sem veldur Covid-19 sé sökudólgurinn eða ekki.

„Fólk er heima og umgengst fjölskyldu sína. Þrátt fyrir að hafa staðfest smit er einkennalausu heimilisfólki ráðlagt að mæta til vinnu, jafnvel heilbrigðisstarfsfólki.“

Sóttvarnartjald fyrir utan sjúkrahús í Svíþjóð.

Troðfullir næturklúbbar á föstudagskvöldi

Almenningur í Svíþjóð virðist taka ástandinu mjög misalvarlega að sögn Berglindar. Sumir sitji heima með kvíðahnút í maganum meðan öðrum finnst ekki ástæða til að breyta út af vananum. Þau haldi áfram að hitta fólk, fara í ræktina og sitja á kaffihúsum.

„Ég heyrði frá vinkonu minni sem býr miðsvæðis að hún hafi gengið fram hjá troðfullum næturklúbbum á leið sinni heim á föstudagskvöld.“

Í mars misstu 36.800 manns vinnuna, flestir í hótel- og veitingageiranum. Aldrei hafa svo margir misst vinnuna á svona stuttum tíma í Svíþjóð. Berglind segir fólk hefur áhyggjur af efnahagi sínum og atvinnumöguleikum.

Maki eða einn aðstandandi á fæðingardeild

Berglind er læknir á Karolinska sjúkrahúsinu en hún segir miklar breytingar hafa átt sér stað þar. Valaðgerðum (skurðaðgerðum sem ekki eru lífsnauðsynlegar) hefur verið frestað og er búið að setja á heimsóknabann.

„Hjá okkur á kvenna- og fæðingadeildinni þýðir þetta að aðeins konur í fæðingu fá að hafa með sér maka eða einn aðstandenda,“ segir Berglind.

„Nú er unnið að því að gera pláss fyrir fleiri COVID-19 sjúklinga og mennta starfsfólk sem mun sjá um þá. Hjá okkur hefur þessi kennsla fyrst og fremst verið í rafrænu formi þar sem hvorki gefst tími né sérhæft starfsfólk til að sinna kennslunni; það fólk hefur of mikið að gera við að sinna sjúklingum.“

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar kynnti hertar aðgerðir um samkomubann. Nú mega 50 manns koma saman.
Fréttablaðið/Getty images

Undirbúa deildir fyrir COVID-19 sjúklinga

Venjulegar sjúkradeildir eins og þvagfæraskurðdeild og kvennadeild eru nú orðnar að COVID-19 deildum og unnið er að því að fjölga gjörgæsluplássum að sögn Berglindar.

Í vikunni munu 100 gjörgæslupláss opna í ráðstefnuhúsi (Stockholmsmässan) og unnið er að fleiri lausnum til að gera okkur kleift að sinna þeirri flóðbylgju alvarlegra veikra sjúklinga sem búist er við.

Mikil reiði og áhyggjur hjá heilbrigðisstarfsfólki

Berglind segir hlífðarbúnað til á deildinni en að skortur sé yfirvofandi. Erfitt sé að fá til landsins mikið magn af hlífðarbúnaði á skömmum tíma.

Læknar á sjúkrahúsinu fá þó misvísandi leiðbeiningar varðandi hlífðarbúnað. Berglind segir að læknar á hennar vinnustað finnist það einkennilegt.

„Til að byrja með var manni ráðlagt að nota svokallaðar PFF3 grímur sem hafa filter sem fangar vírus við umönnun sjúklinga sem sýndu einkenni COVID-19, jafnvel við óstaðfest smit. Svo var leiðbeiningum breytt í að við ættum að nota vatnsheldar skurðgrímur við umönnun fólks með staðfest smit en eingöngu nota PFF3 grímur við aðgerðir þar sem hætta er á myndun aerosol (fíngerðs dropasmits) svo sem við barkaþræðingu eða ef sjúklingurinn þarf að fá loftúða (friðarpípu).

Í lok síðustu viku fengum við svo leiðbeiningar um að við þyrftum engar grímur lengur við venjulega umönnun smitaðs eintaklings, bara hanska, hlífðarslopp og gleraugu. Þetta hefur valdið mikilli reiði og áhyggjum hjá heilbrigðisstarfsfólki þar sem þessi breyting á verklagsreglum styðst ekki við nýjar rannsóknir heldur virðast eingöngu vera gerð vegna yfirvofandi skorts á hlífðarbúnaði. Á mínum vinnustað var ákveðið að halda áfram upptektum hætti, að nota skurðgrímur, í bili að minnsta kosti.“

Tæklað á undarlegan hátt

Karólína, doktorsmeninn í Uppsölum, segist skilja áhyggjur heilbrigðisstarfsfólks eins og líklega þorri sænsku þjóðarinnar. „Þetta er fólk sem er að sjá hvað er að gerast og rýmin eru takmörkuð. Það eru hlutfallslega færri rými hér en á hinum Norðurlöndunum. Það þarf kannski ekki svo mikið að gerast til að heilbrigðiskerfið hreinlega hrynji,“ segir Karólína.

Karólína bendir á að í byrjun faraldursins hafi birgðir af allskonar nauðsynjum verið af skornum skammti, hlífðarbúnaður til dæmis. Þá hafi hanskar verið af skornum skammti og dæmi um að heilbrigðisstarfsfólk hafi þurft að þvo einnota latexhanska. Hún segist skilja áhyggjur heilbrigðisstarfsfólks vel. „Það er það sem er að upplifa þetta á eigin skinni og getur metið þetta. Við sem erum úti í samfélaginu við sjáum þetta ekki.“

Karólína er sem fyrr segir í doktorsnámi í líffræði og bendir hún á að hún sé alls enginn læknir eða veirufræðingur. Þá vill hún koma því á framfæri að hún sé ekki að tala fyrir hönd allra Íslendinga þegar hún viðrar áhyggjur sínar af stöðu mála. „Kannski myndu einhverjir segja að ég væri bölsýnismanneskja,“ segir Karólína sem segist einfaldlega horfa á þær tölur sem eru fyrir hendi hverju sinni og það sem er að gerast annars staðar í heiminum.

„Það er ekki hægt að stoppa þessa veiru nema hreinlega að loka alla inni eða leyfa henni að dreifast hægt með miklum takmörkunum. Mér finnst þeir ekki vera að gera það hér í Svíþjóð. Það er verið að tækla þetta á mjög undarlegan hátt.“

Athugasemdir