Sund- og æfinga­þyrstir lands­menn tóku gleði sína á ný í morgun þegar sund­laugar og líkams­ræktar­stöðvar fengu að opna aftur eftir þriggja vikna lokun. Sundlaugargestir í Vestur­bæjar­laug létu veðrið ekki á sig fá og skelltu sér í sund í rigningunni.

„Stemningin er góð, allir bara himin­lifandi að fá að komast aftur í sund og við himin­lifandi að fá að taka aftur á móti fólki,“ segir Anna Kristín Sigurðar­dóttir for­stöðu­maður Vestur­bæjar­laugar en hún segir stríðan straum fólks hafa verið í laugina frá því hún opnaði í morgun.

Eldri borgarar streitast á móti sóttvarnarreglum

Sótt­varnar­reglur um sund­staði hafa breyst lítil­lega og er stærsta breytingin senni­lega sú að nú eru börn á grunn­skóla­aldri talin með í heildar­fjölda gesta.

„Út frá þeim for­sendum sjáum við fram á að mögu­lega komist enn þá færri í sund heldur en í desember þegar við opnuðum með 50 prósent nýtingu,“ segir Anna Kristín.

Hún viður­kennir að vissu­lega sé þetta svo­lítið svekkjandi og hvetur sundlaugar­gesti til að dreifa sér yfir daginn til að minnka raðir á á­lags­tímum. Anna Kristín segir lang­flesta gesti fara eftir sótt­varnar­reglum en þó hafi hún heyrt af nokkrum at­vikum um bólu­setta eldri borgara sem finnist þeir vera undan­skildir sótt­varnar­reglum.

„Það er kannski pínu á­hyggju­efni hvort að þeir geti verið smit­berar þó að þeir séu hólpnir sjálfir. En flestir eru bara til prýðis hérna, haga sér mjög sóma­sam­lega og með bros á vör,“ bætir Anna Kristín við.

Guðríður Torfadóttir, eigandi Yama Heilsurækt, segir það vera mjög mikilvægt að taka vel á móti þeim einstaklingum sem hafa ekki treyst sér til að mæta þegar faraldrinum lýkur.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Við­skipta­vinirnir björguðu stöðinni

Guð­ríður Erla Torfa­dóttir, betur þekkt sem Gurrý, eig­andi líkams­ræktar­stöðvarinnar Yama Heilsu­rækt var að undir­búa kvöldopnun stöðvarinnar þegar blaða­maður hringdi í hana og segist hún vera spennt að geta opnað aftur fyrir gestum. Yama Heilsu­rækt brugðu á það ráð að bjóða upp á úti­tíma í þær þrjár vikur sem loka þurfti líkams­ræktar­stöðvum.

„Við litum eigin­lega á þetta eins og við værum ekki að loka og færðum okkur bara út í litum hópum en auð­vitað eru alltaf ein­hverjir sem detta út þegar það lokar. Til­finningin mín er að fólk hafi verið að bíða að­eins og sjá eftir hvernig smitin myndu verða en mér sýnist allir vera að koma aftur núna og eftir helgi,“ segir Gurrý.

Hún segir þau hjá Yama Heilsu­rækt hafa verið vel í stakk búin til að takast á við sótt­varnar­reglur þar sem öll starf­semi stöðvarinnar fari fram í hóp­tímum með þjálfara sem telja yfir­leitt ekki fleiri en 10-12 manns í einu.

„En auð­vitað verður mjög gaman þegar þetta verður búið og maður getur farið að nálgast fólkið. Það er eigin­lega það sem ég sakna mest að þurfa alltaf að halda tveggja metra fjar­lægð frá fólkinu,“ segir Gurrý.

Yama Heilsu­rækt hófu starf­semi sína í septem­ber 2019, að­eins nokkrum mánuðum áður en CO­VID far­aldurinn skall á. Gurrý segir stöðina ekki hafa notið góðs af lokunar­styrkjum eða neinum sam­bæri­legum ríkis­styrkjum og segir hún við­skipta­vini sína fyrst og fremst hafa haldið lífi í stöðinni í gegnum far­aldurinn.

„Þetta hefur bjargast alveg ó­trú­lega vel og það er fyrst og fremst af því að ég er með góða við­skipta­vini sem að fjár­festu í lengri tíma kortum, það er á­stæðan fyrir því að við erum að halda velli,“ segir Gurrý.

Hún spáir því að líkams­ræktar­bransinn hér á landi og er­lendis muni blómstra sem aldrei fyrr þegar far­aldrinum lýkur og segir það vera mjög mikil­vægt að taka vel á móti þeim ein­stak­lingum sem hafa ekki treyst sér til að mæta á meðan að veiran lifir enn í sam­fé­laginu.

„Ef fólk er búið að gera eitt­hvað þá hjálpar það til, skokka, fara í göngu­túr eða jóga. En það er á­kveðinn hópur sem hefur ekki haft tök á að gera neitt og ég held það sé alveg á­stæða til að hugsa vel um þau og gera þeirra að­komu inn til okkar góða og upp­lifunina þannig að þeim líði vel þegar þau komi,“ segir Gurrý að lokum.