Fastlínusímum hefur fækkað hægar á Íslandi en í nágrannalöndunum, til dæmis á hinum Norðurlöndunum. Rúmlega 100 þúsund línur eru í landinu og hefur þeim fækkað um rúmlega 40 þúsund. Meirihluti, meiri en 60 prósent, eru í íbúðarhúsnæði.

„Heimilissíminn heldur stöðu sinni ótrúlega vel á Íslandi. Í Finnlandi sem dæmi er hann að þurrkast út,“ segir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Fjarskiptastofnunar. „Fólki finnst eitthvert öryggi fólgið í að hafa heimilissíma og eldri kynslóðin notar þá ekki síður en farsíma. Svo er þetta ekki dýrt.“

Verið er að skipta gamla snúrukerfinu, PSTN, yfir í fastlínu yfir netið, svokallað VoIP-kerfi. Á áratug hefur PSTN-tengingum fækkað úr 120 þúsundum í 20. Samkvæmt Hrafnkeli eru þeir snúrusímar sem eftir eru í óljósleiðaratengdum húsum með koparlínu.

„Það er kostnaðarsamt að reka tvö kerfi sem þjóna nákvæmlega sama tilgangi. Gamla kerfið mun hverfa á þessum áratug,“ segir hann.

Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Fjarskiptastofnunar.

Fleiri talaðar mínútur vegna meiri heimavinnu

Í upphafi faraldursins fjölgaði töluðum mínútum mjög mikið, eða um 10 prósent, og Hrafnkell telur það vera vegna mikillar fjarvinnu fólks. Samkvæmt hálfsársskýrslu Fjarskiptastofu virðist árið í ár ætla að verða svipað hvað það varðar.

Gagnamagn hefur hins vegar aukist mikið á þessu ári. Á fastaneti hafa Íslendingar hlaðið nærri 20 prósentum fleiri terabætum en í fyrra og í símum meira en 30 prósentum. Hrafnkell segir þróunina tvöfalda. Aðgengi að efni sé sífellt að aukast, til að mynda með fjölgun efnisveitna og gæði, og þar með stærð, skránna hafin einnig aukist.