Að sögn ráðherra eru ýmsar ástæður fyrir stöðunni sem komin er upp. „Háskólarnir haldast stundum ágætlega hátt uppi út af tilvísunum í einstaka vísindamenn og fræðimenn sem slá í gegn og eru yfirburða. Við erum auðvitað með litlar einingar,“ segir hún.

„Á sama tíma höfum við kannski ekki fjárfest nægilega í háskólanum. Frá hruni og eftir hrun var tekið í handbremsu í flestum málaflokkum og síðan þá hefur verið haldið í handbremsuna í flestum málaflokkum á meðan aðrir flokkar hafa stóraukið útgjöld sín.“

Áslaug Arna segir brýnt að gæta þess að bera saman með réttum hætti hvernig Ísland stendur gagnvart nærliggjandi löndum.

„Við sjáum að við erum að dragast aftur úr gagnvart gæðum kennslu í samkeppnishæfni og það er mjög alvarleg staða,“ segir hún.

„Ef við ætlum að horfa til vaxtartækifæra í iðnaðinum eins og hugverkadrifnum iðnaði, þekkingariðnaði, loftslagsmálunum öllum. Ef við ætlum að sjá aukna getu iðnaðarins til að vaxa og búa til stöðugra efnahagsumhverfi til lengri tíma þá þarf fólk inn í þau tækifæri.“

Áslaug Arna segist vilja varpa ljósi á að Íslendingar séu ekki að mennta inn í atvinnulífið. „Við erum ekki að mennta fólk inn í þau tækifæri og þá þurfa skólarnir okkar líka að vera samkeppnishæfari,“ segir hún.

Áslaug Arna segist talsmaður þess að fá fleiri inn í iðnmenntunina. „Nú höfum við náð að auka áhuga fólks á henni en þá vantar fleiri pláss. Það er auðvitað jákvætt en við þurfum að gera betur,“ segir hún.

„Stundum er umræðan eins og við séum að mennta alla og ömmu þeirra, það séu bara allir í háskóla. Við erum að mennta færri en meðaltal OECD landanna, til dæmis. Við erum að mennta miklu færri en Noregur og löndin sem við berum okkur saman við. Þar vantar bara upp á stráka.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir var gestur í Fréttavaktinni á Hringbraut þann 13. mars 2023.