Björn Þorláksson
bth@frettabladid.is
Laugardagur 2. júlí 2022
05.00 GMT

Íslenskur ferðalangur, Þorsteinn Gunnarsson íbúi á Selfossi, kannaði verð á gistingu á Keahótelinu á Akureyri 7.–10. júlí næstkomandi. Hann komst að því að verðið á hótelinu fyrir þrjár nætur væri rúmar 263 þúsund krónur.

Nóttin fyrir tvo í rúmlega 21 fermetra herbergi hefði kostað Þorstein 87.755 krónur með morgunverði. Þorsteinn hætti við og bókaði þess í stað ferð til Tenerife.

Þorsteinn Gunnarsson.

„Ég er fullkomlega hneykslaður, þetta eru klikkuð verð og komin út yfir allt velsæmi,“ segir Þorsteinn.

Hann segir að venjulegt fólk hírist ekki á hóteli í þrjá daga fyrir 300.000 kall.

„Ferðaþjónustan virðist ekki hugsuð fyrir okkur,“ segir Þorsteinn sem finnst það synd að Ísland sé ekki fyrir Íslendinga í þessum efnum.

Siðferðislegt álitaefni

Eftir því sem færri herbergi eru laus hækkar verðið samkvæmt venjum sem víða hafa skapast. Ef aðeins tvö til þrjú herbergi eru laus getur verðið farið upp í rjáfur samanber dæmið frá Akureyri. Siðferðislegar spurningar kvikna í þessum efnum að mati Þorsteins.

Fréttablaðið fann út með bókunarforriti að ein strípuð nótt kostar tvöfalt meira, eða víða um fimmtíu þúsund krónur, á gististöðum sem áður buðu upp á brunatilboð þegar heimsfaraldurinn lamaði ferðalög landa á milli.

Ekki alls fyrir löngu voru seld herbergi, kvöldverður og morgunverður fyrir tvo í einum pakka á alls 25.000 krónur. Skammt er því stórra högga á milli. Þá segja hótelstarfsmenn að aldrei hafi skipt meira máli en nú í hvaða mánuði gisting er bókuð. Verðmunur milli heitustu þriggja sumarmánaðanna og jaðartíma getur verið 150 prósent, jafnvel meiri.

Snorri Pétur Eggertsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Keahótelanna, staðfestir að verð herbergis geti rokið svona upp ef um síðustu herbergin sé að ræða. Hann véfengir ekki tölur Þorsteins frá Akureyri.

Snorri vísar því á bug að græðgi sé orsök verðlagningarinnar. Hótelverð hafi hækkað um 50 prósent síðan í fyrrasumar. Heimsfaraldurinn, framboð og eftirspurn skýri þessar breytingar.

Snorri Pétur Eggertsson.

„Bjargræðistíminn okkar er þrír mánuðir. Við reynum að fá sem mestar tekjur frá útlendingunum og stílum nánast eingöngu á þá.“

Snorri segir að Íslendingar muni varla sjást á innlendum hótelum í sumar.

„Þeim finnist verðið of hátt,“ segir Snorri. Þetta er mikil breyting, því árið 2020 voru Íslendingar stærsti kúnnahópurinn innanlands .„Núna eru það Ameríkanar sem búa til mestar tekjurnar.“

Síðustu 12 mánuði hefur gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal lækkað um sjö prósent. Fyrir einn dollar fást nú 132,5 krónur en fyrir réttu ári fengust 123,8 krónur.

Verð á alþjóðlegum bókunarsíðum er í erlendri mynt. Íslensk hótel fá því sjö prósent hærra verð í dag í íslenskum krónum frá bandarískum ferðamönnum miðað við óbreytt verð í krónum í fyrra.

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri tekur undir með Þorsteini Gunnarssyni að það sé miður ef Íslendingar hafi ekki efni á að ferðast um eigið land í sumar – ekki þá nema í húsbíl eða tjaldi. Skarphéðinn skýrir verðhækkunina auk fyrrnefndra þátta með þróun tekjustýringar.

Skarphéðinn Berg Steinarsson.
Fréttablaðið/Gunnar

„Það er auðveldara en var fyrir fyrirtækin að hækka verð. En þeir sem nota þessi kerfi ættu kannski að vera með hámark á verði,“ segir Skarphéðinn.

Spurður um skoðanir erlendra gesta á verði gistingar nú um stundir innanlands segir ferðamálastjóri að viðhorf ferðamanna til þjónustu hér á landi séu linnulaust rannsökuð.

„Það kemur ekki á óvart að ferðamenn telja þjónustu mjög dýra hér.“

Skarphéðinn á þó ekki von á að sumarverðin séu orðin ósjálfbær í þeim skilningi að orðspor af okri leiði til þess að útlendingar hætti að sækja Ísland heim í massavís.

„Hins vegar eru blikur á lofti varðandi haustið,“ segir Skarphéðinn. Meðal annarra þátta nefnir hann stríðið í Úkraínu, erfitt efnahagsástand og óvissu vegna Covid.

„Það er erfiðara en ella að spá fyrir um haustið, því bókunarfyrirvarinn hefur styst.“

Athugasemdir