Velta íslenskra greiðslukorta erlendis nam í apríl síðastliðnum 21,5 milljörðum króna og hefur ekki verið hærri frá upphafi mælinga sem hófust árið 1997.

Í nýliðnum maímánuði nam kortavelta Íslendinga hér á landi tæpum 87,7 milljörðum og jókst hún um 8,6 prósent á milli ára. Mest aukning í innlendri kortaveltu var í kaupum á þjónustu en í maí greiddu Íslendingar 41,1 milljarð fyrir þjónustu með kortum. Það er 20 prósentum meira en í sama mánuði í fyrra.

Kortavelta erlendra ferðamanna hérlendis nam nítján milljörðum í maí og jókst um 35 prósent á milli mánaða. Rúm 37 prósent erlendrar kortaveltu hér á landi var á ábyrgð ferðamanna frá Bandaríkjunum. Þjóðverjar koma næstir með 7,6 prósent og því næst Bretar, 7,1 prósent kortaveltu.