Þakkargjörðarhátíðin er á morgun en Bandaríkjamenn halda upp á hátíðina fjórða fimmtudag í nóvember ár hvert.

Fleiri og fleiri á Íslandi fagna þakkargjörðinni með hverju árinu. Segir Helgi B. Sigurðsson, sölustjóri Ísfugls, sölu á kalkúni á þessum árstíma aukast frá ári til árs.

„Þetta er að seljast mjög vel,“ segir Helgi. „Það sem er að gerast aftur núna er að mötuneytin eru að taka við sér aftur eftir Covid, það er algengt að mötuneyti bjóði starfsfólki sínu upp á þakkargjörðarmáltíð,“ bætir hann við.

Helgi segir misjafnt hvort fólk kaupi heila kalkúna, kalkúnaskip eða -bringur.

„Mötuneytin kaupa mest bringur en það er fjölbreyttara hjá einstaklingum.“

Jessica LoMonaco býr á Íslandi en er frá Bandaríkjunum. Hún fagnar alltaf þakkargjörðarhátíðinni og segir hana að mestu snúast um matinn.

„Hefðin í kringum þakkargjörðina er sú að koma saman, hafa gaman og borða allt of mikinn mat,“ segir Jessica. Hún eldar kalkún, sætar kartöflur með sykurbráð, fyllingu og kartöflustöppu. „Svo er alltaf eitthvað grænt með líka, til dæmis rósakál,“ segir hún.

En trönuberjasósa?

„Já, alltaf svoleiðis, hana nota ég beint úr dósinni,“ segir Jessica. „Ég hef búið hana til sjálf, gerði það til dæmis í fyrra en það er svo mikil nostalgía í því að fá hana beint úr dósinni,“ segir hún.

Jessica býður íslenskum vinum í mat, ásamt vinum sem búið hafa í Bandaríkjunum og enn fleirum sem eru þaðan.

„Það er ekki mikið af fólki frá Bandaríkjunum á Íslandi en þetta er sérstaklega skemmtilegt fyrir fólk sem þekkir þessa hefð, til dæmis fyrir Íslendinga sem ólust upp í Bandaríkjunum.“

Þá segir Jessica Íslendinga sérstaklega forvitna um þakkargjörðarhátíðina. „Þau spyrja mörg fleiri spurninga en ég gerði þegar ég var barn,“ segir hún og hlær.

„En það er ekkert skrítið, ég ólst upp við að læra um það af hverju þessi hátíð er haldin. Flest af því er bara bull, þetta er í grunninn uppskeruhátíð sem snýst um að koma saman og borða,“ segir Jessica.