Þó að kórónu­veirufar­aldurinn láti enn að sér kveða virðist það ekki ætla að koma í veg fyrir ferða­lög lands­manna í sólina um páskana. Þórunn Reynis­dóttir, for­stjóri Úr­vals-Út­sýnar, segist í sam­tali við Morgun­blaðið í dag vera bjart­sýn.

„Það er mjög mikið bókað í kringum páskana. Við ætlum að vera bjart­sýn á að þetta fari að rúlla af stað,“ segir Þórunn við Morgun­blaðið og bætir við að á­hugi Ís­lendinga á ferðum í sólina sé mikill, einkum til Portúgals og Spánar.

Hún segir að fólk sé ekki jafn hrætt við að ferðast og fyrr í far­aldrinum en tekur þó fram að það hægist jafnan á bókunum þegar hertari sam­komu­tak­markanir taka gildi, rétt eins og gerðist fyrir helgi þegar tíu manna sam­komu­bann tók gildi.

Að­spurð hvort fólk gæti þurft að af­bóka ferðir með stuttum fyrir­vara segist Þórunn telja það ó­lík­legt. Það sé þó ó­mögu­legt að full­yrða nokkuð um það enda far­aldurinn verið ó­út­reiknan­legur til þessa.

„Á á­fanga­­stöðum okk­ar er alls staðar verið að gæta að sótt­vörn­um og fólk er að fara var­­lega. Þetta er komið á annað ár og þess­ir aðilar eru van­ir að hugsa í hólf­um og sótt­vörn­um,“ segir Þórunn í Morgun­blaðinu.