Veður

Ís­lendingar flykkjast í ljósa­bekkina í vætu­tíð

Nóg er að gera á sól­baðs­stofum. Virðist mikill munur frá því í fyrra. Þeir sem ekki hafa sótt ljósa­bekki í ára­raðir og jafn­vel ný­græðingar flykkjast í ljós sökum sólar­leysis á landinu.

Sigríður segir oftast þéttbókað hjá þeim á Smart. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Ef marka má umræður á samfélagsmiðlum undanfarnar vikur sárnar Íslendingum hversu lengi sumarið hefur látið bíða eftir sér. Höfuðborgarbúar hafa sumir hverjir flúið land eða leitað skaplegra veðurs á Austur- eða Norðurlandi.

Sumir njóta hins vegar góðs af þessari stöðugu vætutíð og það eru sólbaðsstofurnar.

„Já, já, það er brjálað að gera hjá okkur og mikið bókað. Það er eiginlega búið að vera þannig síðan í apríl,“ segir Ásrún Þóra Sigurðardóttir, starfsmaður Stjörnusólar í Hafnarfirði. „Það er bara ekkert sumar hérna, svo einfalt er það.“

Ásrún segir að mikill munur sé á umferð á sólbaðsstofuna frá því í fyrra.

„Já, það er munur. Það eru allir í sumarfríi á þessum tíma en ekki eins mikið núna. Einhverjir fara utan en þeir sem verða eftir koma til okkar. Hingað eru einnig að koma einstaklingar sem hafa ekki farið í ljós svo árum skiptir. Sumir hafa aldrei farið áður,“ segir hún og hlær. Einhvern tímann verður allt fyrst.

Sigríður Jónasdóttir, starfsmaður á sólbaðsstofunni Smart, tekur í sama streng.

„Jú, það er alveg nóg að gera. Það er mjög þétt bókað hjá okkur enda fáum við ekki að sjá neina sól. Fólk kemur hingað til að næla sér í smá lit. Það er yfirleitt rólegt á sumrin en við finnum mikinn mun frá því í fyrra.“

Þá er einnig mikið að gera hjá Sælunni sólbaðsstofu í Kópavogi.

„Það er nú alltaf töluvert mikið að gera hjá okkur, hvort sem um ræðir sumar eða vetur, en þetta er bara mjög fínt. Stórfínt,“ segir Sigurður Davíðsson, starfsmaður á Sælunni.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er ekki von á miklum breytingum á veðurfari í öllum landshlutum.

Austurland er eini landshlutinn þar sem hlýju og sól er að finna og ætla má að það haldist í einhvern tíma.

„Það er glampandi sól á Austurlandi en ekki búist við miklum breytingum á veðri neins staðar á landinu. Rigningartíðin heldur því áfram að mestu,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Á flótta undan veðrinu: Þung umferð burt

Veður

Kaldur vindur í dag og stormur í nótt

Veður

Norðanhríð, snjóflóðahætta og snarpar vindhviður

Auglýsing

Nýjast

For­maður ASÍ: „Verður ekki til að liðka fyrir við­ræðum“

Telja allt að tólf hafa orðið undir snjó­­flóði

Sól­veig Anna um til­lögurnar: „Ljóst hvert stefnir“

Vil­hjálmur afar von­svikinn: „Þetta var bara það sem lá fyrir“

Leggja til nýtt skattþrep fyrir lágtekjufólk

„Allar kjara­­deilur leysast að lokum“

Auglýsing