Greining Evrópu­sam­bandsins á heimilis­út­gjöldum sýnir að Ís­lendingar verja miklu fé í hús­næði, bíla, á­fengi og veitinga­staði. Minna í raf­magn, vatn, strætó og sígarettur.

Ís­lendingar eyða mun stærri hluta tekna sinna á veitinga­stöðum en aðrir Evrópu­menn. Eða 8,2 prósentum á meðan meðal­tal álfunnar er að­eins 5,3. Þetta er meðal þess sem kemur fram í greiningu Evrópu­sam­bandsins á heimilis­­út­gjöldum hvers lands.

Greiningin gerir ekki ráð fyrir hvað vörur eða þjónusta kostar í hverju landi eða hverjar meðal­tekjurnar eru. Að­eins hversu stór hluti af heimilis­út­gjöldunum fer í hvaða flokk, bæði yfir­flokk og undir­flokk.

Þegar yfir­flokkarnir eru skoðaðir sést að Ís­lendingar verja rúmum fjórðungi út­gjalda sinna í hús­næðis­mál, það er 25,4 prósent. 12,9 prósent fara í mat og drykki (ekki á­fenga), sama hlut­fall fer í sam­göngur, 10,4 prósent í af­þreyingu og menningu, 10,3 prósent í veitinga­staði og hótel, 7,4 í aðrar vörur og þjónustu, 5,8 í hús­gögn og inn­réttingar, 4,2 í vímu­efni, 3,7 í föt og skó, 3,2 í fjar­skipti, 2,8 í heilsu og 1 prósent í menntun.

Mikið hefur verið fjallað um háan hús­næðis­kostnað á Ís­landi og kemur því ekki á ó­vart að Ís­lendingar eyði tölu­vert stærri hluta tekna sinna í af­borganir og leigu, eða 21,4 prósentum á móti að­eins 17,5 prósentum í Evrópu, nærri 4 prósentum minna.

Á móti kemur að Ís­lendingar verja að­eins 2,1 prósenti í raf­magn og 1,1 í vatn á meðan hlut­föllin í Evrópu eru 4,5 og 2 prósent. Ætla má að þessi munur sé að aukast í ljósi orku­krísunnar sem bitnar hart á Evrópu.

Í tölunum sést líka að Ís­lendingar treysta meira á einka­bílinn en al­mennings­sam­göngur. 8,8 prósent út­gjalda fara í rekstur farar­tækis en 7 prósent í Evrópu. Hins vegar verja Ís­lendingar að­eins 0,7 prósentum í al­mennings­sam­göngur en hlut­fallið er rúm­lega tvö­falt í Evrópu, 1,5 prósent.

Önnur sam­fé­lags­breyting sem sést glögg­lega er í neyslu tóbaks. Ís­lendingar verja að­eins 1 prósenti út­gjalda í tóbak, þrátt fyrir hátt tóbaks­gjald. Árið 1968 reykti annar hver full­orðinn Ís­lendingur en nú að­eins 7 prósent. Reykingar eru enn þá út­breiddar í Evrópu, sér­stak­lega í suður- og austur­hlutanum og verja Evrópu­menn 2 prósentum sinna út­gjalda í tóbak.

Ís­lendingar verja hins vegar meiru í á­fengi en Evrópu­búar, 2,9 prósent heimilis­bók­haldsins fara hér í á­fengi saman­borið við 1,8 prósent. Þá verja Ís­lendingar 0,4 prósentum í ó­lög­leg fíkni­efni en ekki eru til tölur frá öllum Evrópu­löndum um það.

Ellefu prósent út­gjalda heimilisins fara í mat­vöru úr búðum og 1,9 í ó­á­fenga drykki. Þetta er lægra hlut­fall en í Evrópu en skýrist lík­lega að miklu leyti af því hversu miklu fé Ís­lendingar verja á veitinga­stöðum.

Af öðrum ein­stökum liðum má nefna að Ís­lendingar verja 3 prósentum í fatnað, 3 í síma og net­þjónustu, 2,2 í hrein­lætis­vörur, 1,3 í lyf og heil­brigðis­vörur, 1,3 í hús­gögn og teppi, 1,2 í dag­blöð, bækur og rit­föng, 1,1 í tryggingar, 1,1 í garð­vörur og gælu­dýr, 0,9 í heimilis­tæki, 0,6 prósentum í skó, 0,6 í borð­búnað, 0,5 í lín, 0,4 í verk­færi og 0,1 í sím­tæki.