Greining Evrópusambandsins á heimilisútgjöldum sýnir að Íslendingar verja miklu fé í húsnæði, bíla, áfengi og veitingastaði. Minna í rafmagn, vatn, strætó og sígarettur.
Íslendingar eyða mun stærri hluta tekna sinna á veitingastöðum en aðrir Evrópumenn. Eða 8,2 prósentum á meðan meðaltal álfunnar er aðeins 5,3. Þetta er meðal þess sem kemur fram í greiningu Evrópusambandsins á heimilisútgjöldum hvers lands.
Greiningin gerir ekki ráð fyrir hvað vörur eða þjónusta kostar í hverju landi eða hverjar meðaltekjurnar eru. Aðeins hversu stór hluti af heimilisútgjöldunum fer í hvaða flokk, bæði yfirflokk og undirflokk.
Þegar yfirflokkarnir eru skoðaðir sést að Íslendingar verja rúmum fjórðungi útgjalda sinna í húsnæðismál, það er 25,4 prósent. 12,9 prósent fara í mat og drykki (ekki áfenga), sama hlutfall fer í samgöngur, 10,4 prósent í afþreyingu og menningu, 10,3 prósent í veitingastaði og hótel, 7,4 í aðrar vörur og þjónustu, 5,8 í húsgögn og innréttingar, 4,2 í vímuefni, 3,7 í föt og skó, 3,2 í fjarskipti, 2,8 í heilsu og 1 prósent í menntun.
Mikið hefur verið fjallað um háan húsnæðiskostnað á Íslandi og kemur því ekki á óvart að Íslendingar eyði töluvert stærri hluta tekna sinna í afborganir og leigu, eða 21,4 prósentum á móti aðeins 17,5 prósentum í Evrópu, nærri 4 prósentum minna.
Á móti kemur að Íslendingar verja aðeins 2,1 prósenti í rafmagn og 1,1 í vatn á meðan hlutföllin í Evrópu eru 4,5 og 2 prósent. Ætla má að þessi munur sé að aukast í ljósi orkukrísunnar sem bitnar hart á Evrópu.
Í tölunum sést líka að Íslendingar treysta meira á einkabílinn en almenningssamgöngur. 8,8 prósent útgjalda fara í rekstur farartækis en 7 prósent í Evrópu. Hins vegar verja Íslendingar aðeins 0,7 prósentum í almenningssamgöngur en hlutfallið er rúmlega tvöfalt í Evrópu, 1,5 prósent.
Önnur samfélagsbreyting sem sést glögglega er í neyslu tóbaks. Íslendingar verja aðeins 1 prósenti útgjalda í tóbak, þrátt fyrir hátt tóbaksgjald. Árið 1968 reykti annar hver fullorðinn Íslendingur en nú aðeins 7 prósent. Reykingar eru enn þá útbreiddar í Evrópu, sérstaklega í suður- og austurhlutanum og verja Evrópumenn 2 prósentum sinna útgjalda í tóbak.
Íslendingar verja hins vegar meiru í áfengi en Evrópubúar, 2,9 prósent heimilisbókhaldsins fara hér í áfengi samanborið við 1,8 prósent. Þá verja Íslendingar 0,4 prósentum í ólögleg fíkniefni en ekki eru til tölur frá öllum Evrópulöndum um það.
Ellefu prósent útgjalda heimilisins fara í matvöru úr búðum og 1,9 í óáfenga drykki. Þetta er lægra hlutfall en í Evrópu en skýrist líklega að miklu leyti af því hversu miklu fé Íslendingar verja á veitingastöðum.
Af öðrum einstökum liðum má nefna að Íslendingar verja 3 prósentum í fatnað, 3 í síma og netþjónustu, 2,2 í hreinlætisvörur, 1,3 í lyf og heilbrigðisvörur, 1,3 í húsgögn og teppi, 1,2 í dagblöð, bækur og ritföng, 1,1 í tryggingar, 1,1 í garðvörur og gæludýr, 0,9 í heimilistæki, 0,6 prósentum í skó, 0,6 í borðbúnað, 0,5 í lín, 0,4 í verkfæri og 0,1 í símtæki.