Endurvinnsla umbúða hér á landi er einhver sú versta í álfunni. Samkvæmt nýjustu tölum er um helmingur allra umbúða hérlendis endurunninn og aðeins um 30 prósent plastumbúða. Afgangurinn er að öllum líkindum urðaður eða fluttur út til brennslu með almennum úrgangi.

„Því miður lenda umbúðir enn þá of mikið í almennum úrgangi hjá okkur. Flokkunin mætti vera betri,“ segir Hugrún Geirsdóttir, sérfræðingur í teymi hringrásarhagkerfisins hjá Umhverfisstofnun. Þá hefur verið greint frá því að úrgangur sem sendur var til endurvinnslu í Svíþjóð gerði það ekki. „Svo virðist sem endurvinnsluaðilar séu ekki að skila öllum umbúðum til endurvinnslu,“ segir hún.

Hugrún Geirsdóttir, sérfræðingur í teymi hringrásarhagkerfisins hjá Umhverfisstofnun

30,8 prósent plastumbúða endurunnin árið 2020

Árið 2020 voru 30,8 prósent plastumbúða endurunnin, en hlutfallið hefur verið á svipuðu róli undanfarinn áratug, frá 22 upp í 30 prósent. Þetta er eitt versta hlutfall í Evrópu þar sem meðaltalið hefur verið rúmlega 40 prósent. Í einstaka löndum hafa allt að 70 prósent plastumbúða verið endurunnin.

Staðan er mjög misjöfn eftir efnisflokkum. Til að mynda gengur Íslendingum vel að endurvinna álumbúðir en eru aftarlega á merinni þegar kemur að endurvinnslu annarra málma og timburs sem dæmi. Gler hefur verið endurnýtt í landmótun og vegagerð en stefnt er að því að gera betur í endurvinnslu þess. Heilt yfir standa Íslendingar sig afar illa í endurnýtingu umbúða og sem dæmi voru árið 2019 aðeins þrjár þjóðir í álfunni sem stóðu sig verr, Ungverjaland, Rúmenía og Malta. Ísland endurvann þá 47 prósent umbúða á meðan meðaltal álfunnar var 64 prósent og í Hollandi og Belgíu var hlutfallið í kringum 80 prósent.

Ekki vitað hvað verður um 70% plastumbúða

„Við vitum ekki hvað verður um 70 prósent plastumbúða en getum gefið okkur að þau fari í almennan úrgang,“ segir Hugrún. „Að einhverju leyti er almennt sorp flutt úr landi og selt í brennslu en hitt er urðað. Því miður er þetta staðan eins og hún er þegar mögulegt er að endurvinna plast mörgum sinnum.“

Þrátt fyrir að staðan sé slæm hafa íslensk stjórnvöld háleit markmið um bætingu. Til dæmis er markmiðið að 50 prósent allra plastumbúða verði endurunnin árið 2025.

Ný hringrásarlög taka gildi um áramót

Ný hringrásarlög taka gildi um áramót þar sem aukin áhersla er á flokkun, bæði hjá heimilum og lögaðilum. Skylda verður að sérsafna í að minnsta kosti sjö flokka, fleiri umbúðir munu bera úrvinnslugjald og merkingar á flokkunartunnum verða samræmdar. Þá verður dýrara fyrir fyrirtæki að pakka vörum í plastumbúðir sem erfiðara er að endurvinna og stefnt er að því að minnka magn umbúða.

Hugrún býst ekki endilega við því að árangurinn af nýju lögunum komi fram strax á næsta ári. En svo hækki hlutfallið vonandi því ýmislegt í hringrásarlögunum styðji við að hægt sé að ná markmiðinu. Að sjálfsögðu byggi þetta á því að samfélagið taki sig á og komi úrgangi í rétta farvegi. „Við getum ekki gert neitt annað en að vera bjartsýn,“ segir Hugrún.