Tölu­vert hefur borið á því að Ís­lendingar eigi í erfið­leikum með að finna greiða leið heim upp á síð­kastið, vegna landa­mæra­lokana og hertra skil­yrða fyrir milli­lendingum að sögn Maríu Mjallar Jóns­dóttur, deildar­stjóra upp­lýsinga­deildar Utan­ríkis­ráðu­neytisins.

„Við erum í beinu sam­bandi við Ís­lendinga er­lendis og vinnum í sam­starfi með hinum Norður­löndunum við að finna leiðir heim,“ segir María í sam­tali við Frétta­blaðið. Enn sem komið er hafa mjög fáir lent í því að lokast inni en stöðugt sé verið að herða landa­mæra­eftir­lit.

Unnið er að því að fylgjast með flug­fram­boði og kort­leggja hvar Norður­landa­búar eru niður komnir ef ske kynni að þau yrðu alveg inn­lyksa. „Eins og staðan er núna þá hefur flug­fram­boð minnkað ört og út­lit er fyrir að það gæti á mörgum stöðum lagst af um mánaða­mótin.“

Flug­leiðir gætu lokast á næstu viku

Guð­laugur Þór Þórðar­son, utan­ríkis­ráð­herra, varaði ný­verið við því að allar flug­leiðir til Ís­lands gætu lokast fyrir 1. apríl. Þá hvatti hann Ís­lendinga er­lendis til að snúa heim strax ef heim­för væri fyrir­huguð.

„Við getum auð­vitað ekki sagt fólki sem á miða þriðja apríl hvort það verði flogið eða ekki, fólk þarf svo­lítið að velja hvort það vilji vera komið heim fyrr, þrátt fyrir að flugið verði á á­ætlun, eða hvort það vilji vera úti þegar flugið er fellt niður,“ segir María og í­trekar að skyn­sam­legast væri að snúa heim í þessari viku hyggi fólk á heim­ferð.

Guð­laugur Þór Þórðar­son, utan­ríkis­ráð­herra, varar Íslendinga við að dvelja of lengi erlendis hyggi þau heimför.
Fréttablaðið/Ernir

Hundruðir á­ætla heim­för á næstu dögum

Tæp­lega sex hundruð Ís­lendingar á­ætla heim­komu fyrir mánaða­mót og tæp­lega þúsund til við­bótar á næstu tveimur mánuðum. Um 2500 eru skráðir með ó­skráðan eða ó­vissan heim­ferðar­dag, sem bendir til þess að þau dvelji mögu­lega lang­dvölum er­lendis.

Mikið álag hefur verið á borgara­þjónustunni undan­farið og hefur þjónustan sinnt tæp­lega þrjú þúsund erindum síðast­liðnar tvær vikur. Þjónustan miðlar einnig upp­­­lýsingum til yfir níu þúsund manns sem skráðir eru í gagna­­grunn sem tekin var í notkun 25. febrúar síðast­liðinn vegna CO­VID-19 far­aldursins.

Fólk hafi sam­band í vanda

„Við höfum brýnt það fyrir fólki að hafa hik­laust sam­band sé það í vanda er­lendis.“ María bendir á að hægt sé að hafa sam­band í síma, tölvu­póst eða á Face­book. Mikið af mis­vísandi upp­lýsum hafi verið á lofti í fjöl­miðlum varðandi lokanir landa og skerðingu far­þega­flugs og bendir María á að öruggast sé að nálgast upp­lýsingar á vef­síðunni utn.is/ferdarad.

Borgara­þjónustan er í beinu sam­bandi við þá Ís­lendinga sem hafa átt í erfið­leikum með að komast heim frá Nýja Sjá­landi og Balí og að­stoða ferða­langa með að út­vega vott­orðum héðan um að fólk megi ferðast.

„Allir Ís­lendingar eru vel­komnir heim og við leggjum á­herslu á að að­stoða alla Ís­lendinga að fremsta megni.“