Töluvert hefur borið á því að Íslendingar eigi í erfiðleikum með að finna greiða leið heim upp á síðkastið, vegna landamæralokana og hertra skilyrða fyrir millilendingum að sögn Maríu Mjallar Jónsdóttur, deildarstjóra upplýsingadeildar Utanríkisráðuneytisins.
„Við erum í beinu sambandi við Íslendinga erlendis og vinnum í samstarfi með hinum Norðurlöndunum við að finna leiðir heim,“ segir María í samtali við Fréttablaðið. Enn sem komið er hafa mjög fáir lent í því að lokast inni en stöðugt sé verið að herða landamæraeftirlit.
Unnið er að því að fylgjast með flugframboði og kortleggja hvar Norðurlandabúar eru niður komnir ef ske kynni að þau yrðu alveg innlyksa. „Eins og staðan er núna þá hefur flugframboð minnkað ört og útlit er fyrir að það gæti á mörgum stöðum lagst af um mánaðamótin.“
Flugleiðir gætu lokast á næstu viku
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, varaði nýverið við því að allar flugleiðir til Íslands gætu lokast fyrir 1. apríl. Þá hvatti hann Íslendinga erlendis til að snúa heim strax ef heimför væri fyrirhuguð.
„Við getum auðvitað ekki sagt fólki sem á miða þriðja apríl hvort það verði flogið eða ekki, fólk þarf svolítið að velja hvort það vilji vera komið heim fyrr, þrátt fyrir að flugið verði á áætlun, eða hvort það vilji vera úti þegar flugið er fellt niður,“ segir María og ítrekar að skynsamlegast væri að snúa heim í þessari viku hyggi fólk á heimferð.

Hundruðir áætla heimför á næstu dögum
Tæplega sex hundruð Íslendingar áætla heimkomu fyrir mánaðamót og tæplega þúsund til viðbótar á næstu tveimur mánuðum. Um 2500 eru skráðir með óskráðan eða óvissan heimferðardag, sem bendir til þess að þau dvelji mögulega langdvölum erlendis.
Mikið álag hefur verið á borgaraþjónustunni undanfarið og hefur þjónustan sinnt tæplega þrjú þúsund erindum síðastliðnar tvær vikur. Þjónustan miðlar einnig upplýsingum til yfir níu þúsund manns sem skráðir eru í gagnagrunn sem tekin var í notkun 25. febrúar síðastliðinn vegna COVID-19 faraldursins.
Fólk hafi samband í vanda
„Við höfum brýnt það fyrir fólki að hafa hiklaust samband sé það í vanda erlendis.“ María bendir á að hægt sé að hafa samband í síma, tölvupóst eða á Facebook. Mikið af misvísandi upplýsum hafi verið á lofti í fjölmiðlum varðandi lokanir landa og skerðingu farþegaflugs og bendir María á að öruggast sé að nálgast upplýsingar á vefsíðunni utn.is/ferdarad.
Borgaraþjónustan er í beinu sambandi við þá Íslendinga sem hafa átt í erfiðleikum með að komast heim frá Nýja Sjálandi og Balí og aðstoða ferðalanga með að útvega vottorðum héðan um að fólk megi ferðast.
„Allir Íslendingar eru velkomnir heim og við leggjum áherslu á að aðstoða alla Íslendinga að fremsta megni.“