Íslendingar borða minna af fersku grænmeti og ávöxtum og minna af mjólkurvörum. Kjötneysla stendur í stað en neysla á þurrum, frosnum og nðursoðnum grænmetisvörum hefur aukist. Þá neyta Íslendingar meira af sælgæti. Frá þessu er greint í nýrri greiningu embættis landlæknis um fæðuframboð á Íslandi. Fram kemur á vef embættisins að skoðuð eru kíló á hvern íbúa en fæðuframboð er framleiðsla + innflutningur – útflutningur – önnur not

Framboð á fersku grænmeti hefur minnkað úr 53 kílógrammi á íbúa árið 2014 í 51 kílógrammi á íbúa árið 2020. Framboð á ferskum ávöxtum hefur dregist verulega saman úr 66 kílógrammi á íbúa árið 2014 í 58 kílógrammi áíbúa árið 2020.

Ekki hefur verið hægt að vinna slíka greiningu frá árinu 2014 vegna mikils fjölda ferðamanna hér á landi en þá var ekki hægt að greina á milli neyslu þeirra og neyslu landsmanna. Í fyrra, í upphafi heimsfaraldurs, fækkaði ferðamönnum á landinu og því betur hægt að greina þessar upplýsingar. Á vf embættisins segir að þótt svo að framboðstölur veiti ekki beinar upplýsingar um neyslu matvæla gefi þær vísbendingar um þróun á mataræði þjóðarinnar. Í greiningunni er farið yfir framboð á ýmsum mismunandi matvöruflokkum eins og mjólk og mjólkurvörum, sykri, kjöti og fiski.

Meira af þurrkuðum baunum

Þótt svo að íbúar neyti minna af fersku grænmeti og ávöxtum kemur fram að framboð á öðrum grænmetisvörum, frystum, niðursoðnum og þurrkuðum, hafi aukist töluvert. Til dæmis hefur framboð á niðursoðnum tómatvörum og þurrkuðum baunum aukist í heildina úr 17 kílóum á íbúa árið 2014 í 20 kílóum á íbúa árið 2020.

Framboð á ávaxtavörum hefur einnig aukist úr 26 kílum áíbúa árið 2014 í 29 kílóum áíbúa árið 2020 og er það aðallega aukning í framboði á ávaxtasafa.

Landlæknir telur út frá þessu að auka þurfi neyslu á ávöxtum og grænmeti til að takmarkinu um fimm skammta, eða 500 grömm, af grænmeti og ávöxtum á dag sé náð, eins og ráðlagt er og að rétt sé að vekja athygli á því að ávaxtasafar teljast ekki lengur með í fimm skömmtum á dag.

Þá kemur fram í greiningunni að framboð á mjólk og mjólkurvörum hefur minnkað. Sala á drykkjarmjólk (nýmjólk, léttmjólk og undanrennu) minnkar í heildina frá 2014 úr 95 kílóum á íbúa á ári í 69 kíló áíbúa á ári 2020.

Ekki var hægt að fá upplýsingar um sölu einstakra tegunda drykkjarmjólkur árið 2014 en nú er nýmjólk komin í mikinn meirihluta og er 41 kg/íbúa á móti 24 kg/íbúa af léttmjólk og undanrenna og fjörmjólk er einungis 4 kg/íbúa á ári.

Árið 2007 þegar síðast voru birtar upplýsingar fyrir einstakar tegundir drykkjarmjólkur þá var framboð á nýmjólk og léttmjólk jafnmikið, 49 kg/íbúa og framboð á undanrennu og fjörmjólk 16 kg/íbúa. Einnig minnkar framboð á sýrðum mjólkurvörum, skyri og ostur minnkar einnig lítillega en rjómaskyr eykst frá árinu 2014.

Íslendingar borða meira af baunum miðað við þessa greiningu.

Framboð á sykri heldur minna en sælgæti heldur meira

Sykurframboðið hefur heldur minnkað frá árinu 2014 en þá var það 42 kíló á íbúa en var 40 kíló áíbúa 2020. Um er að ræða innfluttan sykur og sykurhluta úr innfluttum sykurríkum vörum. Á móti hefur sælgætisframboð aukist úr 18 kílóum á íbúa árið 2014 í 20 kíló á íbúa árið 2020 sem samsvarar um 374 grömmum á íbúa á viku.

Ekki fengust upplýsingar frá gosdrykkjaframleiðendum um innanlandsframleiðslu á gosdrykkjum frá árinu 2014 og því eru ekki birtar upplýsingar um gosdrykkjaframboð fyrir árið 2020.

Framboð á kjöti stendur nánast í stað samkvæmt greiningunni en lítilsháttar aukning varð í framboði á nauta-, svína- og alífuglakjöti en framboð á kindakjöti minnkaði.

Feitmetisframboð minnkar heldur

Heildarfeitmetisframboðið hefur minnkað úr 26 kílóum árið 2014 í 24 kíló á íbúa 2020. Það varð lítils háttar aukning í framboði á smjöri en framboð á smjörva minnkaði lítillega en mest munar um minna framboð á smjörlíki. Önnur fita og fituminna smjörlíki stóð nokkuð í stað. Ráðlagt er að nota meira af mjúkri (ómettaðri) fitu (jurtaolíum, feitum fiski, lýsi, hnetum, fræjum og avókadó) og minnka á móti hlut harðar fitu í fæðinu.

Nánar hér á vef landlæknis.