Leynd virðist ríkja um fjárfesta að baki Hnútuvirkjunar í Hverfisfljóti, umdeildrar fyrirhugaðrar framkvæmdar sem fimm náttúruverndarsamtök auk fjölda heimamanna hafa kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Í kærunni segir að náttúru­undur í sögu­frægu Skaft­ár­elda­hrauni séu í hættu, gangi á­form um virkjun eftir og um sé að ræða brot á lögum.

Fréttablaðið hefur meðal annars fjallað um þverrandi vatnsmagn náttúruperlunnar Lambhagafossa ef virkjað verður, og vegagerð sem skemma mun ásýnd sögufrægs hrauns.

Í kærunni er bent á að Skaft­ár­­hreppur búi yfir magnaðri, lítt raskaðri og verð­mætri náttúru, mikil­vægasta at­vinnu­grein sveitar­fé­lagsins, ferða­þjónustan, byggir á því ríki­dæmi.

Þrír sveitarstjórnarmenn af fimm í Skaftárhreppi gáfu grænt ljós á framkvæmd virkjunarinnar á fundi rétt fyrir kosningar.

Tveir fulltrúar minnihlutans voru andvígir og skiluðu bókun þar sem ákvörðunin var harðlega fordæmd. Sandra Brá Jóhannsdóttir sveitarstjóri vildi ekki hafa mörg orð um kærurnar þegar Fréttablaðið bar málið undir hana í gær.

„Það er engra viðbragða að vænta strax, hann var bara að klárast athugasemdafresturinn. Ég get ekki tjáð mig, ég er ekki búin að sjá þessi gögn,“ segir Sandra Brá.

Spurð um meint lögbrot ítrekar sveitarstjóri að ekki sé tímabært að tjá sig frekar að sinni.

Ragnar Jónsson, landeigandi á Dalshöfða, er skráður framkvæmdaaðili virkjunarinnar. Ragnar sagði í samtali við Fréttablaðið fyrir skemmstu að hann liti svo á að virkjunin væri í höfn. „Ég get ekki breytt skoðunum fólks sem er á móti þessu,“ sagði Ragnar.

Þrálátur orðrómur hefur verið meðal heimamanna um að fleiri fjárfestar séu á bak við áformin. Hefur verið nefnt að Íslandsvirkjun sé með augastað á virkjuninni. Þórir Kristmundsson, verkefnastjóri hjá Íslandsvirkjun, sagði þegar hann var spurður í gær hvort Íslandsvirkjun ætti eignarhlut í Hnútuvirkjun: „Ekki svo ég viti til.“

Fréttablaðið hringdi í Pétur Bjarnason, forstjóra Íslandsvirkjunar, og spurði hvort félagið ætti hlut í Hnútuvirkjun. „No comment,“ svaraði Pétur. Blaðið spurði hvort Pétur vildi ekki ræða við fjölmiðla um hina umdeildu virkjun. „Heyrðu, ég bið bara að heilsa, vinur,“ svaraði Pétur þá og sleit símtalinu. Það er því óljóst hvort félagið á hlut að máli eða ekki.

„Heyrðu, ég bið bara að heilsa, vinur“
-Pétur Bjarna­son, for­stjóri Ís­lands­virkjunar

Á heimasíðu Íslandsvirkjunar segir að virkjanir á vegum félagsins séu Gönguskarðsárvirkjun og Köldukvíslarvirkjun. Áhersla sé á smærri virkjanir og umhverfisvæna orkuframleiðslu, græna orku.

Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, bóndi, sem sat í minnihluta sveitarstjórnar Skaftárhrepps, greiddi atkvæði gegn Hnútuvirkjun. Hún segist bjartsýn á að ekkert verði af áformunum.

„Ég fagna þessum kærum, þarna eru framin skýr brot á náttúruverndarlögum og mikið í húfi að þessi landslagsheild verði ekki rofin. Ég hef fulla trú á að þessu verði snúið við,“ segir Heiða.

„Mér finnst allt í lagi að draga það fólk til ábyrgðar sem að þessu stendur, ég vorkenni þeim ekki neitt.“

Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, bóndi, greiddi atkvæði gegn Hnútuvirkjun.
Fréttablaðið/Anton