Stærstu hestasamtök Íslands og Alþjóðasamtök íslenska hestsins, FEIF, skora á íslensk stjórnvöld að stöðva blóðmerahald. Íslandsstofa segir viðbrögð alþjóðasamfélagsins við fregnum um blóðtöku á fylfullum hryssum hér á landi hafa verið hörð.

„Samfélagið er í áfalli eftir fréttirnar. Myndbandið frá dýraverndarsamtökunum fór eins og eldur í sinu um heiminn og það er ljóst að hestafélög víða um allt land og allan heim vilja stöðva þetta undir eins,“ segir Jelena Ohm, verkefnastjóri Horses of Iceland, í samtali við Fréttablaðið.

„Ég fékk svolítið mikið af skilaboðum frá fólki sem sagðist aldrei ætla að koma til Íslands meðan þetta er enn í gangi.“

Sniðganga Ísland og íslenskar vörur

Aðspurð um ímynd íslenska hestsins segir Jelena að uppljóstrunin hafa haft neikvæð áhrif.

„Við höfum lengi verið að byggja upp ímynd íslenska hestsins og það gekk mjög vel. Við slógum met þrjú ár í röð og nú í ár var mesti útflutningur á íslenska hestinum í íslenskri sögu, um 3200 hross. Þetta var búin að vera mjög jákvæð þróun og svo kom þessi skellur,“ segir Jelena.

Blóðmeri í blóðtökubás á íslenskum bæ.
Mynd: Animal Welfare Foundation / Tierschutzbund Zürich

Sjálf hefur hún fengið aragrúa af skilaboðum frá ferðamönnum og erlendum unnendum íslenska hestsins sem ætla að sniðganga Ísland.

„Ég fékk svolítið mikið af skilaboðum frá fólki sem sagðist aldrei ætla að koma til Íslands meðan þetta er enn í gangi.“

Hestaklúbbar sniðganga allt íslenskt

Sigrún Brynjarsdóttir, hrossaeigandi sem býr í Bandaríkjunum, segist sjálf hafa orðið vör við mikla umræðu um blóðmerahald í íslenskum hestaklúbbum vestanhafs.

„Fullt af fólki ætlar að sniðganga allt íslenskt þangað til þetta stoppar,“ segir Sigrún í samtali við Fréttablaðið. Fólk eigi ekki orð að slík grein sé leyfð á Íslandi, sérstaklega í ljósi þess að íslenski hesturinn sé þjóðarstoltið.

„Viðhorf þeirra hefur ekki breyst gagnvart íslenska hestinum meira gagnvart Íslandi og að þetta sé leyft.“

Meðal félaga sem beita sér nú við að stöðva blóðmerahald eru Félag hrossabænda, Landssamband hestamannafélaga og aðildarfélög þeirra, Félag tamningarmanna og alþjóðasamtökin FEIF en þau eru öll í stjórn Horses of Iceland.

Íslenskir blóðtökubæir sem svissnesku dýrasamtökin Animal Welfare Foundation skoðaði.
Mynd: AWF

Tölur sem enginn ætlaði að hugsa til enda

Jelena segir áhugavert að sjá viðbrögð almennings. Blóðmerahald hafi verið þekkt sem lítil aukagrein í hestasamfélaginu og ekki endilega litið á sem stóran hluta af íslenskri hestarækt. Fregnir af stækkun starfseminnar hafi komið mörgum í opna skjöldu.

Lyfjatæknifyrirtækið Ísteka, eina fyrirtækið með leyfi frá MAST til að taka blóð úr fylfullum hryssum til vinnslu afurða, áætlar að stækka framleiðslu sína á næsta ári. Fyrirtækið hefur sótt um leyfi frá Umhverfisstofnun að draga allt að 600 þúsund lítra úr 20 þúsund blóðmerum. Úr því væri hægt að vinna 20 kg af lyfjaefni, eCG (e. equine chorionic gonadotropin) einnig þekkt sem PMSG (e. Pregnant mare's serum gonadotropin). Ákvörðun um starfsleyfið verður tekin fyrir lok janúar 2022.

„Allt í einu stækkaði þetta svo mikið og Ísteka lýsti yfir áformum að safna 600 tonnum af blóði á ári en önnur afurð er auðvitað 20 þúsund folöld. Þetta eru tölur sem enginn virðist ætla að hugsa til enda. Þetta var bara galið.“

Gott að málið sé komið upp á yfirborðið

Jelena segir gott að málið hafi komið upp á yfirborðið á þessum tímapunkti áður en það var of seint. Bændasamfélagið stendur á krossgötum.

„Mikil umræða hefur átt sér stað í bændasamfélaginu. Það eru auðvitað fullt af bændum sem hafa stundað þetta í langan tíma án þess að vera með dýraníð. Það var hræðilegt að sjá myndbandið en það er gott að þetta sé komið upp á yfirborðið því auðvitað vill maður ekki að þetta sé stundað. Það er bara leitt að það þurfti að koma frá erlendum dýraverndarsamtökum en ekki frá Íslandi.“

Jelena fagnar ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að skipa starfshóp til að rannsaka málið. Sömuleiðis telur húnlíklegt að frumvarp Ingu Sæland, formanns og þingmanns Flokks fólksins um að banna blóðmerahald, njóti mikils stuðnings unnenda íslenska hestsins.

Jelena Ohm, verkefnastjóri Horses of Iceland hjá Íslandsstofu.
Mynd: Íslandsstofa